Bárðarbunga. Heimild: ruv.is
Bárðarbunga. Heimild: ruv.is
Fréttir | 17. september 2014 - kl. 18:01
Loftmengun frá Holuhrauni
Almannavarnir í viðbragðsstöðu

Almannavarnir á Norðurlandi vestra eru í viðbragðsstöðu vegna þeirra eldsumbrota sem eiga sér stað norðan Vatnajökuls og er fylgst grannt með stöðu mála. Mistur er yfir Skagafirði sem má rekja til loftmengunar frá gossvæðinu en mengunarsvæðið nær vestur yfir Hofsjökul og norður að Skagafirði. Mistursins gætir einnig í Húnavatnssýslum.

Almannavarnir í  Skagafirði og Húnavatnssýslum hafa ekki fundað formlega vegna málsins, enda ekki talin bein hætta af eldgosinu í landshlutanum, en einstakir fulltrúar fylgjast vel með framvindu mála.

„Við erum eru í sambandi við Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra og vakta atburðarrásina eftir þörfum, jafnvel klukkutíma til klukkutíma allan sólarhringinn ef svo ber undir,“ sagði Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri og formaður Almannavarnanefndar Skagafjarðar,í samtali við Feyki. Vert er að benda á að gosstöðvarnar eru ekki í mikilli fjarlægð frá Sauðárkróki en einungis 156 km eru að Bárðarbungu í beinni loftlínu.

Að sögn Bjarna G. Stefánssonar sýslumanns á Norðurlandi vestra eru Almannavarnir Húnavatnssýslna í viðbragðsstöðu vegna eldsumbrotanna og  er fylgst vel með fréttum af þeim. Lögreglan  á Blönduósi vaktar jafnframt framvindu mála.

„Gosstöðvar liggja í um 200 – 220 km fjarlægð frá Húnaþingi og hingað til hefur ekki verið talin bein hætta af þeim þar sem vindáttir hafa beinst frá Norðvesturlandi,“ segir Bjarni.

Búast má við áframhaldandi loftmengun inn á Norðvesturlandi. Ef fólk verður vart við óvenjulega mikla loftmengun með óþægindum í öndunarfærum eða augum þá þeim ráðlagt að vera innandyra, loka gluggum og hækka á ofnum til að koma í veg fyrir að mengun berist inn. Nauðsynlegt er að muna eftir dýrunum líka og alls ekki láta dýr reyna á sig við þannig aðstæður.

Á heimasíðum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, almannavarnir.is, Veðurstofunnar „vedur.is“  og Umhverfisstofnunar „ust.is“ eru veittar góðar upplýsingar um viðbrögð við náttúruvá.

Heimild: www.feykir.is

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga