Nöldrið | 08. október 2014 - kl. 18:35
Októbernöldur

Það eru falleg og upplýsandi skilti sem komið hefur verið upp við fuglahúsið nýja og einnig á eyrinni utan við ána. Ekki hafði ég gert mér grein fyrir að allir þeir fuglar sem þar eru taldir upp og sýndir á mynd væri að finna á og við ána. Þegar maður skoðar þessi skilti fer ekki hjá því að maður hugsi sem svo að fuglunum sé gert hærra undir höfði en íbúum bæjarins. Á hverju einasta sumri sér maður ráðvillt fólk aka um í bílum sínum,  skimandi í allar áttir í leit að húsi í ómerktri götu og oftar en ekki er húsnúmerið falið bak við hávaxið tré. Það getur verið erfitt að „lóðsa“ gesti sína gegnum bæinn og heim að húsi þegar víðast hvar vantar götumerkingar í bænum.  Á þessum nöldursíðum hefur áður verið kvartað yfir því að þessar merkingar vantar. Að setja fallegt skilti á staur við hverja götu er bæði upplýsandi og staðarlegt og ætti að vera krafa okkar bæjarbúa að sett verði við hverja götu fyrir næsta sumar.

Kirkjan okkar vekur alltaf jafn mikla athygli hjá ferðamönnum, sérstaklega þeim erlendu.  Ég þori að fullyrða að hún er vinsælasta myndefni þeirra sem hér stansa  og að margar myndar eru teknar af henni daglega. Ég býst ekki við að kirkjan hafa yfir digrum sjóðum að ráða en væri ekki hægt að mála hurðirnar á kirkjunni, þó ekki væri nema til að verja viðinn frekari skemmdum.  Það getur nú varla verið svo dýrt. Það er gaman að kirkjan skuli verið opin yfir sumarmánuðina og ég hef trú á því að gestagangur þar sé töluverður. Ég kom í kirkjugarðinn hér á Blönduósi í sumar og vitjaði leiðis forfeðra minna ásamt aðkomnum skyldmennum sem höfðu orð á því hvað hann væri vel snyrtur og um hann hugsað og gekk ég stoltur út um sáluhliðið að lokinni heimsókn.

Vegna alls nöldursins og athugasemdanna sem hér hafa birst á undanförnum árum út af „sýslumannsbrekkunni/sneiðingnum“ eða hvað hún heitir brekkan upp af Aðalgötunni, þá er mér bæði ljúft og skylt að þakka fyrir það sem gert var þar í sumar. Nú er hægt að aka þarna á réttum vegarhelmingi, hvort sem þú ert á upp- eða niðurleið og –bingó- engin hola.  En þá tekur annað við því nú er uppkominn ágreiningur um það hvað þessi brekka er kölluð. Þarna takast á ungir og  eldri Blönduósingar og er bara gaman að þessu. Þeir eldri kannast ekkert við sýslumannsbrekkuna og kalla hana  „sneiðinginn“ en þeir yngri halda sig við sýslumannsbrekkunafnið.

Hún var glæsileg myndin sem prýddi forsíðu Morgunblaðsins 7.okt. sl.  tekin af „hirðljósmyndara“ okkar Blönduósinga,  Jóni Sigurðssyni.  Þar má sjá norska ofurhuga á brimbrettum í briminu við Blönduós.  Ég veit að þessi íþrótt er töluvert stunduð í briminu við suðurströndina en væri ekki tilvalið fyrir þá sem sjá um ferðamál hér um slóðir (séu þeir einhverrjir) að bjóða uppá þessa íþrótt hér við Húnaflóann.  Ekki þyrfti  tilkostnaður að vera svo mikill, annað en að byggja hús t.d. á eyrinni utan við ána þar sem væru sturtur og hægt væri að hafa fataskipti. Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum áður en Skagfirðingar grípa hugmyndina.  

Í þessum mánuði gengur vetur í garð og  vonandi verður hann ekki snjóþungur frekar en undanfarnir vetur. Það mun vera gömul trú að sé eldur uppi á Íslandi verði vetur ekki harður og ég ætla að trúa að það sé rétt.

Með kveðju, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga