Hvammstangakirkja
Hvammstangakirkja
Fréttir | 23. október 2014 - kl. 07:48
Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar á Hvammstanga

Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 2014 verður haldið á Hvammstanga um helgina en þar munu rúmlega 600 unglingar, leiðtogar og prestar af öllu landinu koma saman til þess að fræðast, gleðjast og uppbyggjast í trú, von og kærleika. Dagskrá mótsins fer fram í íþróttahúsinu á Hvammstanga þar sem kvöldvökur, hæfileikakeppni, búningaball og fræðsla fara fram.  

Laugardaginn 25. október frá klukkan 14-16 verður mótið opið almenningi en þá hefst karnival í Íþróttahúsinu. Þar verður ýmislegt í boði fyrir börn og fullorðna. Meðal annars verður hægt að sjá afrakstur hópavinnunnar og sjá leik,- söng- og dansatriði á sviði. Einnig verður hægt að kaupa sér pylsu, pönnuköku eða vöfflu. Þá munu börn geta föndrað, farið í andlitsmálun og leiki, fengið gasblöðru og popp.

Í hópastarfinu á laugardeginum frá klukkan 13-14 verður að hægt að kaupa bílaþvott við Söluskálann Hörpu. Allur ágóði af karnivali og hópastarfi rennur til styrktar alnæmisverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lokamessa Landsmótsins verður haldin í Íþróttahúsinu á Hvammstanga sunnudaginn 26. október klukkan  11. Hljómsveitin Sálmar sér um tónlistarflutninginn í messunni og leiðir  kröftugan sálmasöng. Unglingar úr Æskulýðsfélagi Hvammstangakirkju munu flytja tónlistaratriði. Sóknarpresturinn á Hvammstanga stýrir messu en sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup prédikar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga