Nöldrið | 04. nóvember 2014 - kl. 10:23
Nóvembernöldur

Mér og eflaust mörgum fleirum finnst það snjöll hugmynd að gamla Blöndubrúin, sem nú ryðgar í rólegheitum upp við skeiðvöll verði aftur notuð til að brúa Blöndu, en nú yfir í Hrútey.  Þetta er mikið snjallari hugmynd en sú, sem uppi hefur verið, að brúa Blöndu niður við ós og spilla þar með stórkostlegu útsýni út á flóann, til Strandafjalla og sólarlagsins. Sé gamla brúin í því ástandi að hún geti nýst sem göngubrú er það betri kostur, auk þess sem það hlýtur að vera margfalt ódýrara að setja brúna niður á klettunum við Hrútey en að byggja undirstöður undir hana á sandinum við ósinn.

Samkvæmt nýlegum fréttum sótti Blönduósbær um styrk hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna þessa verkefnis og það má undrum sæta ef ekkert verður veitt til þess á næsta ári, þar sem ferðamannastaðir á Norðurlandi vestra voru algerlega sniðgengnir árið 2014 þegar veittar voru 380 milljónir til framkvæmda  í öllum öðrum kjördæmum. Verði af þessari framkvæmd, leyfi ég mér að bera fram þá frómu ósk að sett verði á hana skilti þar sem tekið sé fram að hún hafi upphaflega verið vígð 25. ágúst 1897 og skiltakrækir skal ekki voga sér að hrófla við því upplýsingaskilti.

Ég er hræddur um að mörgum hafi brugðið í brún þegar komið var á styrktarsjóðsballið og ekki var hægt að kaupa gosflösku í Félagsheimilinu, hvað þá annað sterkara. Ekki var heldur boðið upp á vatn, nema þá að drekka það úr krönunum. Við sem eldri erum munum þá tíma þegar allflestir dansgestir komu með áfengisflösku í plastpoka, en væri blandið tekið með var það umsvifalaust gert upptækt því það var selt í húsinu. Eftir að bjórinn var leyfður jókst umfangið í pokunum og enn þyngist burðurinn ef hætt er að selja allan vökva í húsinu. En að öllu gamni slepptu, hvað er eiginlega að verða um Félagsheimilið okkar. Ef undan eru skyldar nokkrar erfidrykkjur á ári er þar ósköp lítið um að vera vikum og mánuðum saman.  Ég trúi því ekki að áhugasamir staðarhaldarar gætu ekki komið meira lífi í húsið, þannig að það nýttist betur.

Í sumar var unnið að viðgerðum á húsinu að utan og óskandi að sú viðgerð bæti ástand þess. Mörg félagsheimili út um landið eru nú kölluð menningarhús þar sem reynt að efla starfsemi þeirra með menningarviðburðum svo sem listsýningum ýmiskonar, tónleikum, leiksýningum og fleiru. Það  þarf að koma að rekstrinum einhver sem hefur áhuga á að efla starfsemi hússins svo þetta glæsilega hús haldi reisn sinni en koðni ekki niður. Það á sannarlega skilið að því sé sómi sýndur.

Það er kominn nóvember og jólafasta hefst síðasta dag þessa mánaðar svo þetta er allt að skella á. Ég hlakka til að fara að grafa eftir seríunum í bílskúrnum. Ég vona að þið hafið öll jafn gaman af því og ég að  tékka á perum, greiða úr flækjum, finna fjöltengin og öllu sem þessu fylgir.  Vona að nóvember verði snjóléttur og gaslítill.

Kær kveðja frá Nöldra.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga