Nöldrið | 18. desember 2014 - kl. 15:25
Desembernöldur

Enn eitt lekamálið kom upp í fréttum á dögunum þegar tillögur landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra „láku“ til Ríkisútvarpsins, að því er virðist. Flestir vissu af nefndinni en fáir vissu að tillögur hennar hefðu átt að fara inn á fund ríkisstjórnarinnar enda hafði efnið ekki verið tilgreint í dagskrá fundarins. Þegar þetta er skrifað er vika síðan Ríkisútvarpið sagði frá þessu og enn hafa tillögurnar ekki litið dagsins ljós, formlega, en sagt hefur verið frá nokkrum þeirra eins og að flytja eigi ríkisstofnanir og fyrirtæki til Sauðárkróks. Þá er ein tillagan um gagnaver á Blönduósi en ekki fylgdi sögunni hver ætti að byggja það eða reka og hvað þá hvenær það ætti að koma.

Ekki þekki ég til starfa þessarar ágætu nefndar en bíð spenntur eftir að fá að sjá afrakstur starfa hennar og að lesa um þær 30 tillögur sem hún leggur fram um hvernig megi efla byggðaþróun og fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Verkefni nefndarinnar er risastórt og varðar mikla hagsmuni fyrir Norðurland vestra, allt frá Hrútafirði og að Tröllaskaga.

En eitthvað hefur farið úrskeiðis. Af hverju þessi leynd. Af hverju tilkynnti nefndin sjálf ekki formlega að hún væri komin með þessar tillögur og myndi afhenda þær ríkisstjórninni og í framhaldinu yrðu þær gerðar opinberar? Afleiðingar þess að það var ekki gert eru nú að birtast í fjölmiðlum landsins og í samfélagsmiðlum. Afleiðingarnar eru almennt neikvæð umræða út í svæðið, eitthvað sem íbúar á Norðurlandi vestra þurfa ekki og eiga ekki skilið. Neikvæðasta umræða beinist að Sauðárkróki þar sem formaður nefndarinnar er þaðan og er framsóknarmaður að auki. Hér hefði öðruvísi mátt standa að málum í að koma skilaboðum áleiðis.

Og talandi um skilaboð. Frásagnarformið er ævaforn leið til að koma skilaboðum áleiðis. Fólk hefur frá öndverðu vilja láta segja sér sögur. Þetta eru allt frá ævintýrum í æsku sem foreldrarnir segja börnum sínum á kvöldin, Íslendingasögurnar sem þeir fullorðnu lesa um hetjur fortíðar eða bíómyndirnar þar sem við horfum á andstæðinga etja kappi á hvíta tjaldinu. Fréttir eru auðvitað ekkert annað en ákveðið form af sögum af fólki og stöðu þess í heiminum.

Sögur eru samskiptaform, miðlun skilaboða. Ef vel tekst til vekja sögurnar eftirtekt. Sagnaformið bæði tengir fólk saman og færir hlustanda/lesanda nær viðfangsefninu. Sögur hafa líka áhrif. Þær fræða lesendur um heiminn, kenna þeim að leggjast ekki í rúm bjarnanna og skilja eftir sig tætingslega slóð eins og Gullinbrá. Þær draga upp mynd af viðfangsefninu í hugum þeirra sem á þær hlýða eða lesa t.d. í dagblöðum eða á vefnum.

Sagnaformið sem miðlun skilaboða gagnast til dæmis fyrirtækjum, sveitarfélögum og landsvæðum. Með góðri sögu er dregin upp mynd af sveitarfélaginu eða landssvæðinu, eiginleikum þess og kostum og lesendur fræddir í leiðinni. Góð saga sem vekur eftirtekt lifir í formi frétta sem sérsniðnar eru fyrir flókinn heim í nútíma fjölmiðlun. Rétt eins og ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn sannar þá skilar frásögnin árangri – hún lifir alla.

Landshlutanefndin gleymdi að huga að miðlun skilaboða sinna. Kannski hafði hún aldrei hugsa um hvort eða hvernig hún ætlaði sér að segja frá tillögum sínum. Kannski er það ekki einu sinni í verkahring nefndarinnar, hver veit. Í það minnsta þarf formaður nefndarinnar að tjá sig og tala við fjölmiðla um tillögurnar og þá er eins gott að vera vel undirbúinn ef ekki á illa að fara.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga