Nöldrið | 13. janúar 2015 - kl. 22:01
Janúar nöldur

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Nú fer daginn að lengja á ný. Við verðum strax vör við það að birtan nærir okkur lengur á degi hverjum og því ber að fagna. Ein átveislan tekur við af annarri. Það er varla að maður sé búinn að jafna sig eftir jólaveisluna og þá tekur þorrinn við með öllum sínum þorrablótum og úrvali af kjarngóðum íslenskum mat. Ég er strax farinn að hlakka til þorrablóts Vökukvenna sem haldið er á hverju ári hér á Blönduósi fyrstu helgina í þorra. Dapurlegt að lesa að þorrablóti Húnvetningafélagsins í Reykjavík hefði verið aflýst vegna dræmrar þátttöku. Halda átti það 17. janúar sem sumum finnst kannski heldur of snemmt.

Inn á Fésbókarsíðu Húnahornsins las ég fyrir skömmu skrif sem snerta Nöldra, og vöktu þau athygli mína. Upphafið má rekja til pælinga eins Fésbókarnotanda um að tími væri kominn til að Húnahornið myndi senda Nöldra í ævilangt frí og í staðinn ætti vefurinn að taka á móti pistlum frá, til dæmis „Pepparanum“. Sá myndi leggja sig í líma við að hrósa og minnast á það sem vel er gert. Fésbókarnotandanum fannst Nöldri vera neikvæður og niðurdrepandi að pistlar hans sæjust á forsíðu Húnahornsins. Fjölmargir tóku undir þetta en aðrir voru þessu ekki sammála eins og gengur og gerist. En umræðan er góð. Umræða er alltaf góða. Viðhorf fólks til vandamála er oft æði misjafnt. Margir flokka vandamál til leiðinda og að tala um vandamál sé neikvætt og merki um svartsýni. Þessu er ég algjörlega ósammála. Það að benda á það sem betur má fara, rýna til gagns, á ekki flokka sem neikvæða og leiðinlega umræðu, hvað þá að hún sé svartsýn. Ef vandamála er aldrei leitað og aldrei á þau minnst, er fátt gert til að laga þau. Það má ekki gefa sér það að sá sem talar um vandamál og bendir á það sem betur megi fara sé svartsýnn og neikvæður.

En fólk má segja hvað sem er við annað fólk. Móttakandi skilaboðanna verður að skilja skilaboðin. Ekki er hægt að stýra því hvernig móttakandi skilaboða túlkar skilaboðin. Að móttakandi skilaboða (t.d. lesandinn eða hlustandinn) móðgist eða pirrist fjallar ekkert um sendandann. Hann getur ekki ráðið viðbrögðum fólks. Fólk lætur móðgast eða pirrast. Sendandi skilaboða á ekki að velta viðbrögðum móttakanda þeirra fyrir sér nema hann sé tilbúinn til frekari samskipta við þá sem láta móðgast. Er kannski einfaldast að skjóta sendiboðann ef svo ber undir?

Á dagskrá funda sveitarstjórnar Blönduósbæjar er oftar en ekki liður sem heitir „skýrsla sveitarstjóra“. Í fundargerð er þá ritað að sveitarstjóri hafi farið yfir ýmis mál í sveitarfélaginu og að lesa megi skýrslu hans á vef sveitarfélagsins á næstu dögum. Misbrestur er á að það gerist. Ef skýrslan kemur á vefinn er það oftast eftir fleiri en nokkra daga, ef hún kemur þá á annað borð. Sem dæmi þá hefur skýrsla sveitarstjóra frá fundi 18. nóvember síðastliðnum enn ekki ratað inn á vefsíðu Blönduósbæjar og ekki heldur skýrsla frá 18. mars á síðasta ári. Æskilegt væri að bæjarbúar Blönduósbæjar fengju að lesa þessar skýrslur strax, annað hvort í fundargerðunum sjálfum eða á vefnum eins og lofað er. Hvers vegna fer skýrsla sveitarstjóra ekki á vefinn um leið og fundargerð sveitarstjórnar?

Kveðja,
Nöldri

 

 

 

 

 

 

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga