Nöldrið | 08. febrúar 2015 - kl. 13:00
Febrúarnöldur

Skyldi þessi vetur ætla að slá þeim síðasta við hvað hálku og óstöðugt tíðarfar snertir. Frá áramótum hefur varla verið hægt að staulast á milli hús nema á mannbroddum. Ekki eru þó snjóþynglsin að hrella okkur, heldur þessir klakabunkar sem erfiðlega gengur að losna við. En nú er myrkrið að víkja og birtutíminn eykst með hverjum deginum sem líður og margt sem gleður sinnið, þó enn sé langt til vors, eins og til dæmis blessuð þorrablótiðin sem standa nú sem hæst um allar jarðir. Þorrablót Vökukvenna sem árlega er haldið fyrsta laugardag í þorra brást ekki  vonum manna frekar en fyrri daginn. Maturinn, framleiddur í heimabyggð og framreiddur af alúð og smekkvísi, var ljúfengur að vanda og unga fólkið sem sá um skemmtiatriðin stakk á mörgum kýlum og var mátulega kvikindislegt, en allir skemmtu sér prýðilega. Ekki má gleyma Trukkunum, hljómsveit úr heimabyggð sem lék í fyrsta sinn á þorrablóti hér. Hún kom sannarlega fram með miklu trukki og má mikils vænta af þessum strákum í framtíðinni. Bestu þakkir fyrir frábært kvöld.

Rétt fyrir jólin var birt á Húnahorninu bréf frá fjölskyldu sem flutti hingað í bæinn fyrir rúmu ári. Þetta bréf skrifa þau til að þakka fyrir þær frábæru móttökur sem fatlaður sonur þeirra fékk í Blönduskól og Skjólinu. Þau fara svo fögrum orðum um starfsfólk þessara staða að það hlýtur að hafa yljað þeim sam þar eiga hlut að máli. Það gerir okkur bæjarbúa líka glaða og stolta að vita af svona frábæru starfsfólki sem vinnur  með börnunum okkar. Það er sannarlega þakkarvert þegar fólk segir frá því sem vel er gert og mætti vera meira af því í þessu rifrildis þjóðfélagi sem við búum í þar sem hver reynir sem best hann getur að koma höggi á náungann. Ég óska starfsfólki Blönduskóla og Skjólsins til hamingju með þessa fallegu umsögn um þeirra störf og þakka þessu ágæta fólki sem sendi bæjarbúum svona hlýja nýjárskveðju og vona að þeim eigi eftir að líða vel hérna hjá okkur.

Nú á nýju ári getum við glaðst yfir frábærum árangri Júdófélagsins Pardus á afmælismóti JSÍ í yngri aldursflokkum sem náði 2. besta árangri allra félaga. Snjólaug María Jónsdóttir slær hvert metið af öðru í leirdúfuskotfimi og var valinn íþróttamaður ársins hjá U.S.A.H. Erla Jakobs valinn maður ársins af lesendum Húnahornsins og á þann titil sannarlega skilið fyrir sitt frábæra starf í íþróttamiðstöðinni. Gaman er líka að sjá að þrír af sjö keppendum sem komnir eru í undanúrslit í Eurovision keppni RÚV eiga sterka tengingu við Blönduós. Við getum sannarlega borið höfuðið hátt og verið stolt af okkar fólki.

Það mætti halda að þetta febrúarnöldur væri skrifað af „Pepparanum“( sjá nöldrið í janúar) vegna þess  að í því er ekkert nema hrós og jákvæðni. Það sýnir að Nöldra er ekki alls varna og gleður vonandi þá sem láta nöldur fara svo í taugarnar á sér að þeir nöldra um það á fésbókinni.  En að öllu gamni slepptu, göngu glöð mót hækkandi sól og verum góð hvort við annað.

Kveðja Nöldri.

Es. Enn bólar ekkert á skýrslum sveitarstjóra inn á vef Blönduósbæjar eins og lofað er í fundargerðum sveitarstjórnar. Nú vantar bæði skýrslu sem lögð var fram á fundi sveitarstjórnar 18. nóvember á síðasta ári og vegna 13. janúar á þessu ári. Í fundargerðunum segir að skýrslurnar megi lesa "á heimasíðu sveitarfélagsins á næstu dögum."

 

 

 

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga