Nöldrið | 05. mars 2015 - kl. 21:44
Marsnöldur

Einu sinni, fyrir ekki svo mörgum árum, var hér starfrækt mjólkurstöð, sem tók á móti mjólk frá kúabúum sýslunnar og vann úr henni skyr, mjólk og rjóma og síðast en kannski ekki síst þurrmjólk, sem var talin einstök að gæðum, sú besta hér á landi. Ekki veit ég með vissu hvað margir unnu í mjólkurstöðinni þegar flest var en get ímyndað mér að það hafi verið um 15 manns, að meðtöldum mjólkurbílstjórunum sem sóttu mjólkina í sveitirnar hvern dag. Þá eru ótalin öll störfin sem vélvirkjar og rafvirkjar og aðrir iðnaðarmenn bæjarins sinntu við viðgerðir og viðhald á vinnustað þar sem framleiðslan má aldrei stoppa. Þetta misstum við burtu. Það fór allt, störfin, þekkingin og vélarnar og ég minnist þess ekki að mikið hafi verið barist fyrir því hér heima að þessi vinnustaður væri áfram hér í bænum eða að reynt væri að tala fyrir því að efla þessa atvinnustarfsemi hér til hagsældar fyrir bæinn og héraðið. Mjólkurstöðvarhúsið stendur þó enn á Húnabrautinni og skilst mér að þar starfi einn maður í hlutastarfi fyrir MS, sem þó gaf það loforð þegar mjólkurstöðin var lögð af, að það yrði áfram starfsemi í húsinu, einhverskonar matvælavinnsla, en það loforð var svikið.

Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að ég las grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðasta mánuði þar sem sagt var frá samstarfi MS og Matís um rannsóknir á mysu, en hráefni úr henni má nýta til að búa til etanól til framleiðslu á áfengi og eldsneyti eða til notkunar í iðnaði. Þar segir að mikið falli til af mysu við ostagerð ekki síst í stóru ostagerðarbúunum á norðurlandi. Úr mysunni er búið til mysupróteinþykkni, sem notað er við framleiðslu á próteindrykknum Hleðslu og einnig fer eitthvað  í fóður. Við ostaframleiðsluna verður til aukaafurð sem kölluð er mjólkursykurvatn og þekkt framleiðsla er að breyta mjólkursykri í vínanda.

Það er ekki ætlunin að endursegja alla þessa blaðagrein, en má þó bæta við að mysuprótein er talið allra próteina heilnæmast og þess vegna mikið notað í heilsuvörur og mest af því sem hér er notað flutt inn. Nú má spyrja hvers vegna ekki var hugað að einhverskonar vinnslu mjólkurafurða, t.d. vinnslu úr mysu sem fellur til í miklu magni hjá KS á Sauðárkróki eftir að þeir fluttu starfsemina úr mjólkurstöðinni okkar yfir til sín og hófu þar ostaframleiðslu. Maður hefur það stundum á tilfinningunni að við látum endalaust vaða yfir okkur. Að við reynum ekki að berjast fyrir okkar rétti, sem, eins og  í þessu tilfelli að allir reiknuðu með að starfsemi tengd mjólkuriðnaðinum héldi áfram í mjólkurstöðvarhúsinu. MS á þetta hús sem veðrast ár frá ári og fær lítið sem ekkert viðhald og byggja stórhýsi á Sauðárkróki til að vinna úr mjólkinni sem m.a. kemur héðan úr héraðinu. Það hafa allt of mörg verðmæt störf farið héðan og eru stöðugt að fara meðan ráðamenn sitja og horfa á teikningar vegna „væntanlegs“ gagnavers frekar en berjast fyrir því sem við höfum og reyna að halda í það.

Ég þori varla að segja að ég sé farinn að bíða eftir vorinu. Líklega er rétt að láta páskhátíðina líða áður en maður leyfir sér það. En óneitanlega  lifnar yfir okkur þegar birtan sigrar skammdegismyrkrið og sólin fer að bræða frerann. Eins og svo oft áður höfum við sloppið vel við slæm veður  það sem af er vetri og ber að þakka það. Verum hress með snjóinn í fjöllunum og reynum að njóta hans þar okkur til heilsubótar.

Kveð að sinni (með vor í hjarta) Nöldri.

Kveðja Nöldri.

Es. Enn bólar ekkert á skýrslum sveitarstjóra inn á vef Blönduósbæjar eins og lofað er í fundargerðum sveitarstjórnar. Enn vantar bæði skýrslu sem lögð var fram á fundi sveitarstjórnar 18. nóvember á síðasta ári og vegna 13. janúar á þessu ári. Og nú er kominn mars. Í fundargerðunum segir að skýrslurnar megi lesa "á heimasíðu sveitarfélagsins á næstu dögum."

 

 

 

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga