Fréttir | 25. mars 2015 - kl. 15:24
Söngperlur Vilhjálms og Ellýjar slógu í gegn

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hefur lokið tónleikaröð sinni á Söngperlum Vilhjálms og Ellýjar en haldnir voru fernir tónleikar,  á Blönduósi, Hvammstanga, Sauðárkróki og í Miðgarði. Tónleikarnir voru vel sóttir og þóttu frábærir. Karlarnir í kórnum eru í skýjunum yfir viðtökum tónleikagesta og hefur sú ákvörðun verið tekin að halda áfram með Söngperlur Vilhjálms og Ellýjar næsta vetur og leyfa öðrum landshlutum að nóta.

Eftir að síðasta verkefni Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps lauk „Lífsdans Geirmundar Valtýssonar“, sem fékk frábærar viðtökur, fór kórinn að velta fyrir sér nýju verkefni. Kórnum langaði til að halda áfram að flytja dægurlög og ekki síst að halda áfram samstarfi við Hljómsveit Skarphéðins Einarssonar. Úr varð að taka valin lög Vilhjálms og Ellýjar og flytja þau, en Rögnvaldur Valbergsson útsetti lögin fyrir karlakór og hljómsveit, ásamt Skarphéðni. 

Kórinn æfði frá því í haust og fór frumflutningur fram á Söngperlum Vilhjálms og Ellýjar í Blönduóskirkju 5. mars síðastliðinn. Í framhaldinu voru haldnir tónleikar á Hvammstanga 9. mars, á Sauðárkróki 11. mars og nú síðast í Miðgarði 22. mars. Tónleikarnir heppnuðust allir vel og voru viðtökur tónleikagesta frábærar.

Rétt er að geta þess einnig að Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps verður 90 ára á árinu og mun kórinn halda upp á það í Húnaveri á síðasta vetrardag 22. apríl næstkomandi.

Á Youtube er hægt að sjá upptökur af nokkrum lögum sem teknar voru á tónleikunum. Til dæmis lögin Heyr mína bæn og Frostrósir.

Fréttir af Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps má svo finna á Facebook síðu kórsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga