Nöldrið | 12. apríl 2015 - kl. 21:02
Aprílnöldur

Nemendur Blönduskóla sendu bæjaryfirvöldum áskorun í vetur um að fjölga bæði rusladöllum og bekkjum við götur bæjarins. Mikið er ég sammála krökkunum og ég trúi því að minnka mætti ruslið sem fýkur um götur og garða ef fleiri ruslafötur væru á fjölförnum stöðum. Nú er að koma sá tími sem allt fyllist af ferðafólki bæði innlendu og erlendu og við ættum að leggja metnað okkar í að taka sem best á móti þessum gestum og sýna þeim okkar bestu hliðar. Það blasir við hverjum sem gengur um bæinn að víða skortir tilfinnanlega viðhald. Gangstéttir eru víða mölbrotnar, svo og kantsteinar.  Illgresið fær að vaxa hér óáreitt eins og bent hefur verið á í mörgum Nöldrum. Girðingar bæði í bæjarins eigu og íbúa eru víða illa farnar og ég spyr: Þarf að vera með gaddavírs girðingar t.d. meðfram Hnjúkabyggðinni  og víðar í bæjarlandinu. Það er yfirleitt ekki nein prýði að þeim. Girðingar umhverfis íbúðarhús eru líka víða í ólestri og mörg húsin í bænum vantar margvíslegt viðhald, t.d. málningu. Í því sambandi má benda á kirkjuna, sem er líklega það hús sem flestir erlendir ferðamenn heimsækja hér. Ég trúi því ekki að það þurfi að kosta offjár á mála eða bera á hurðir kirkjunnar svo þær líti sómasamlega út. Hér áður fyrr heyrði maður ókunnuga tala um hvað Blönduós væri snyrtilegur bær. Þær raddir hef ég ekki heyrt lengi. Nú er það okkar að taka saman höndum og fegra kringum okkur. Bæjaryfirvöld þurfa líka og ekki síður að ganga á undan með góðu fordæmi, því eftir höfðinu dansa limirnir. Ég er viss um að flestir íbúa geta tekið undir þær óskir að bærinn fjölgi rusladöllum og bekkjum í bænum, einnig að götur verði merktar með almennilegum skiltum. Þessar aðgerðir ættu ekki að setja eitt bæjarfélag á hausinn. Ég veit að dýrara er að ráðast í lagfæringu gangstétta og að uppræta illgresi svo ekki sé minnst að vandræðabarnið okkar félagsheimilið. Það er dýrt að láta viðhald sitja endalaust á hakanum.  Eftir því sem ég kemst næst standa fyrir dyrum allskonar mannfagnaðir hér í bænum í sumar, sem vonandi skila okkur mörgum gestum og góðum tekjum . Þar á ég við Landsmót 50+, skákmót í tilefni 90 ára afmælis Skáksambands Íslands, Smábæjarleikarnir og svo hátíðin okkar Húnavaka.  Tökum nú höndum saman og fegrum bæinn okkar. Ef bæði íbúar og kjörnir fulltrúar bæjarins leggjast á árar má ýmislegt laga sem miður hefur farið og kennski heyrast þá aftur þær raddir sem hrósa Blönduósingum fyrir snyrtimennsku.

Það virðist ekki ætla að verða neitt lát á heimsóknum erlendra gesta til landsins. Jafnvel talað um að þeir verði orðnir ein og hálf miljón eftir tvö ár. Það er farið að sýna sig að ekki  fer vel um allt þetta fólk í hundrað kílómetra radíusi kringum höfuðborgina og spurning hvort þessir ferðalangar vildu ekki gjarnan sjá eitthvað annað en aðra ferðamenn á þeim slóðum. Sjaldan er minnst á Norðurland vestra sem spennandi paradís ferðamannsins en hér væri hægt að bjóða margvíslega afþreyingu, kyrrð og afslappandi ferðir. Gönguferðir og hestaferðir, fram til heiða eða út til sjávar. Meirihluti þessara útlendinga vill upplifa víðáttuna, kyrrðina og fámennið sem þeir eiga ekki að venjast en við eigum í miklum mæli. Það væri hægt að skipuleggja allskonar göngu- og hestaferðir og enda svo á nokkrum dögum í góðu dekri með góðum mat úr héraði. Þá sé ég fyrir mér Húnavelli sem ákjósanlegan stað, eftir að skólabörnin væru kominn í skólann hér á Blönduósi. Það er svo margt hægt að gera en það kostar áræði og þor.

Það er ekki skrýtið að fólki blöskri tillögur svokallaðrar norðvesturnefndar sem stingur upp á því að af 130 störfum sem koma eiga á svæðið fari 90 í Skagafjörð. Þá skilja fáir þetta rugl að þessi blessaða nefd sjá ekki önnur tækifæri en flutning á störfum og heilu fyrirtækjunum frá Reykjavík  til Sauðárkróks. Hefði nú ekki verið nær að koma með  góðar hugmyndir um nýsköðun hér á svæðinu sem nýtti raforku frá Blönduvirkjun og þá okkur öllum til hagsbóta, ekki bara Skagfirðingum. Það eru ekki margir sem hugnast þær áætlanir að rífa starfsfólk heilu stofnananna upp frá eignum sínum og störfum maka til að flytja út á land eins og hugmyndir um flutning Fiskistofu sýna. Til að enda þetta dettur mér í hug  hugmynd fyrir fulltrúa okkar Austur-Húnvetninga í norðvesturnefndinni, sem ég veit að kemur alltof seint. Því ekki að athuga möguleika á að koma upp vindorkuveri, byggja röð vindmylla út með ströndinni til Skagastrandar. Þarna er, að því er mér er sagt sjaldan logn. Þarna mætti framleiða töluvert af rafmagni, sem við fengjum kannski sjálf að nýta og færi ekki allt til Sauðárkróks.

Af því sumardagurinn fyrsti er á næstu grösum, þakka ég fyrir veturinn og óska okkur öllum gleðilegs sumars með sól í heiði.

Kveðja,
Nöldri.

Es. Enn bólar ekkert á skýrslum sveitarstjóra inn á vef Blönduósbæjar eins og lofað er í fundargerðum sveitarstjórnar. Enn vantar bæði skýrslu sem lögð var fram á fundi sveitarstjórnar 18. nóvember á síðasta ári og vegna 13. janúar á þessu ári. Og nú er kominn apríl. Í fundargerðunum segir að skýrslurnar megi lesa "á heimasíðu sveitarfélagsins á næstu dögum."

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga