Nöldrið | 11. maí 2015 - kl. 12:00
Maínöldur

Um fátt er meira talað þessa dagana en norðanáttina og kuldann sem við höfum mátt búa við undanfarnar vikur og sér vart fyrir endann á. Það er enn snjór víða í görðum og ef skóflu er stungið í kartöflugarðinn sem orðinn var frostlaus má finna frostskán í moldinni. Svona kuldavor hafa eflaust oft komið, þó ég muni ekki eftir því. Sem betur fer vill maður  gleyma því leiðinlega en muna frekar það sem gott er. Við þurfum þó ekki að kvarta miðað við fólk á Austurlandi þar sem snjóar upp á hvern dag og heiðar og fjallvegir eru ófærir og mikið hafa höfuðborgarbúar látið í sér heyra í vetur, ekki kátir með veðrið þar. Oft er talað um að við lifum á mörkum hins byggilega heims og margir flýja kuldann á Fróni og koma sér í heitara loftslag eins oft og þeir geta. Grein sem Víkverji skrifaði í Moggann fyrir nokkru vakti athygli mína og má ég til að setja hana hér til gamans.

„Víkverji rakst á grein fyrir stuttu þar sem greint var frá því að Ulan Bator í Mongólíu væri kaldasta höfuðborg í heimi. Sagði að í Ulan Bator gæti frostið farið allt í 40 stig og níst gegnum merg og bein.  Víkverji hélt áfram lestrinum fullur hluttekiningar þar til hann las að helstu keppinautar Ulan Bator um titilinn kaldasta höfuðborg í heimi væru Astana í Kasakstan, Reykjavík og  Moskva. Í Ulan Bator er meðalhitinn á ári -2,4 gráður, í Reykjavík 4,4 gráður og í Moskvu 5 gráður.„

Nú veit ég ekki hver sumarhitinn er í Ulan Bator en veit að í Moskvu getur orðið vel heitt á sumrin. Öll vitum við hvernig íslensku sumrin eru. Stundum erum við heppin en stundum bíðum við allt sumarið eftir að það byrji og svo er komið haust áður en varir.  Ég tel þó að þessi samanburður á meðalhita sem Víkverji birtir komi mörgum á óvart.

Við skulum trúa því að það komi sumar eftir þetta kalda vor og þá þeysa ferðmenn um landið bæði innlendir og erlendir. Ég hef komið á velflesta þéttbýliskjarna á landinu og veit að snyrtimennska er það fyrsta sem ferðalangur tekur eftir þegar komið er í bæi á landsbyggðinni. Það hefur gríðarlega mikið að segja að bæjaryfirvöld og íbúar taki höndum saman og lagi til á lóðum og opnum svæðum. Þá er ekki síður nausynlegt að atvinnurekendur taki til í sínum ranni. Í sumar eigum við von á hundruðum gesta  sem sækja munu þau íþróttamót sem fyrirhuguð eru hér, að ekki sé talað um Húnavökuna, fyrir nú utan alla umferðina um þjóðveg 1 sem liggur í gegnum bæinn okkar. Nú hvet ég alla bæjarbúa til að láta hendur standa fram úr ermum og taka ærlega til. Ég hvet líka alla sem eiga númerslausar bíldruslur sem vilja daga uppi hér og þar að losa sig við hræið, þið fáið pening fyrir, athugið það.

Nú er bláa húsið orðið gult og heitir ekki lengur Kaffishúsið við Árbakkann, heldur Ömmukaffi og  eru misjafnar skoðanir á því eins og gengur. Aldrei hægt að gera svo öllum líki. Ég er sáttur við litinn, sem minnir á sólina, enda marglýstur sólar unnandi, nafnið aftur á móti finnst mér frekar lummulegt, en auðvitað venst það og ekki ætla ég að láta það aftra mér frá að fá mér kaffi og tertusneið eða eitthvað annað girnilegt sem ég veit að verður í boði hjá hinum vösku konum sem  hefja sinn rekstur nú í sumarbyrjun og óska ég þeim til hamingju og velgengni á nýjum vettvangi.

Það styttist óðum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og nú er það María litla sem hér sleit barnsskónum sem ætlar að flytja framlag Íslands þetta árið. Ég efast ekki um að hún mun standa sig með stakri prýði og heilla margar miljónir sem fylgjast með keppninni með sinni frábæru rödd og fallegu framkomu.  Ef laginu gengur vel í þessari keppni, þakka ég það Maríu og hennar „sjarma“ . Lagið sjálft finnst mér ekkert sérstakt og frekar leiðigjarnt til lengdar. Við skulum ekki gleyma að senda Maríu góða strauma á úrslitakvöldunum. Áfram María.

Nú er ég viss um að það snjóar ekki meira þetta vorið. Get að vísu ekki lofað því, en hef þessa tilfinningu. Með sól í hjarta skulum við því ganga glöð út í sumarið.

Bless
Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga