Hvammstangakirkja
Hvammstangakirkja
Fréttir | 21. maí 2015 - kl. 15:13
Norskur kirkjukór í Hvammstangakirkju

Kirkjukór Grønnåsenkirkju í Tromsø í Noregi heldur tónleika í Hvammstangakirkju næstkomandi laugardag, 23. maí, klukkan 16:00. Við Grønnåsenkirkju starfar kirkjukór sem telur um 20 manns. Kórinn tekur þátt í guðsþjónustum mánaðarlega að jafnaði, en heldur jafnframt tónleika bæði í Grønnåsenkirkju og utan hennar.

Kórinn er þekktur fyrir áhugaverðan tónlistarflutning, allt frá renesans- og barokktónlist með hljómsveit skipaðri upprunalegum hljóðfærum til nútímaverka. Ár hvert heldur kórinn líka hina vinsælu miðnætursólartónleika í Ishavskatedralen.

Kórinn hefur áður farið söngför til Þýskalands en leggur nú leið sína til Íslands í fyrsta sinn og hlakkar mikið til, að því er segir í tilkynningu. Söngskráin samanstendur af norskri og skandinaviskri kórtónlist. Undirleikari á orgel og píanó er Robert Frantzen. Stjórnandi kórsins er Hanne-Sofie Akselsen og leikur hún einnig á flautu. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga