Nöldrið | 15. júní 2015 - kl. 22:12
Júnínöldur

Mig langar að þakka Guðmundi St.Ragnarssyni (Mugga) ágæta grein sem birtist eftir hann á Húnahorninu fyrir nokkrum vikum. Þar skrifar hann um það áhugaleysi sem fræðimenn á sviði fornleifarannsókna sýna Húnavatssýslu og á þar eflaust fyrst og fremst við Þingeyrar þar sem fyrsta klaustur á Íslandi var reist. Nú veit ég ekki frekar en Muggi hvort mikill þrýstingur hefur verið frá heimamönnum á að hefja fornleifauppgröft á Þingeyrum og hann spyr einnig hvort einhver stefnumörkun sé í ferðaþjónustu hér á svæðinu. Auðvitað er einhver stefnumótun hér í ferðaþjónustu og vonandi vel stutt við bakið á þeim sem standa að henni  en betur má ef duga skal og alltaf má gera betur. Þessir  milljón ferðamenn sem sagðir eru koma til landsins eru svo sem ekkert að troða okkur um tær og við gætum alveg tekið við fleirum. En þakka þér kærlega Muggi fyrir að pota aðeins í okkur, ég veit að það er gert af tryggð við gamla bæinn þinn og  þú mættir gera það oftar því glöggt er gests augað.

Nú eru unglingagengin tekin til við að hreinsa götur og torg. Grænklæddar verur spretta fram úr trjábeðum vopnaðar skóflum og öðrum garðverkfærum. Nú er um að gera að hreinsa og fegra bæinn okkar því von er gestum. Ég sá fréttatilkynningu  frá bænum þar sem sagði frá fundi  umhverfisnefndar bæjarins sem fjallaði um umgengni hjá íbúum og fyrirtækjum og að bréf yrðu send þar sem úrbóta væri þörf.  Allt er þetta nú gott og blessað en bærinn má heldur ekki gleyma sínu rusli og ég spyr: Á mönin við Sunnubrautina að vera eins og hún er eitt sumarið enn?  Á ekkert að gera til að losna við illgresið sem er að yfirtaka bæjarlandið?  Er ekki til neinn peningur í kassanum svo hægt sé að byrja á að gera við stórhættulegar gangstéttir sem eru um allan bæ?

Þó hér sé verið að nöldra og finna að má ekki heldur gleyma að þakka það sem vel er gert. Kærar þakkir fyrir bekkina sem búið er setja upp viðsvegar í bænum. Þeir gleðja örugglega marga. Kærar þakkir til eiganda gömlu kirkjunnar fyrir það hversu vel hún lítur út. Hún er staðarprýði í gamla bænum. Og nú ætla konurnar í bænum að fara að prjóna utan um ljósastaura og bekki, þær eru búnar að prjóna allt sem hægt er á börnin og kallinn og nú leggja þær undir sig götur og torg. Ég ætla að bíða með þakkirnar þar til ég sé árangurinn.

Gleðjumst yfir sumrinu, það mætti að vísu sýna sig aðeins meira, en það er mikið eftir og svo kemur Húnavakan.

Kveðja Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga