Fréttir | 23. júlí 2015 - kl. 11:44
Prjónaganga á Húnavöku

Fyrsta prjónagangan á Blönduósi var gengin á síðasta degi Húnavöku. Alls mættu níu galvaskir göngumenn sem létu rigningarsudda og rok ekki stöðva sig. Gengið var frá Hótel Blönduósi og sem leið lá um Blöndubyggð, að hringtorginu inn í bæinn, yfir brúna og í Íþróttamiðstöðina þar sem göngugarpar skoðuðu ljósmyndasýningu og yljuðu sér stutta stund.

Áfram var haldið út Árbraut og endað á opnun sýningar listamanna sem nú dvelja í Kvennaskólanum. Fengu göngumenn leiðsögn um bakgrunn prjónagraffsins á ljósastaurum sem urðu á vegi þeirrra.

Prjónagangan var hin skemmtilegasta þrátt fyrir kalsaveður. Vonandi verður framhald á.

Myndirnar tóku hjónin Kurt Gardella og Cornelia Theimer Gardella.

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga