Nöldrið | 09. ágúst 2015 - kl. 22:29
Ágústnöldur

Það er að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa um veðráttuna í sumar, svo ég sleppi því þó ég sé eins og allir, hundfúll yfir kuldanum og sólarleysinu. Það má segja að hver stórviðburðurinn hafi rekið annan hér í sumar en þar á ég við Smábæjaleikana, svo Landsmót 50+ og loks Húnavökuna. Ég hef ekki heyrt annað en almenn ánægja hafi verið með þessa íþrótta- og mannfagaði alla bæði hjá gestum og heimamönnum. Auðvitað setti veðrið mark sitt á Húnavökuna og færri sóttu okkur heim en oft áður þess vegna. Svo er alltaf leiðinlegt að þurfa að færa kvölddagskrána á laugardagskvöldið inn í hús. Það er allt önnur stemninga sem verður þegar hægt er að vera úti og allir taka þátt í söng og tralli. Sirkusinn á Kvennaskólatúninu, sem fjölmargir sóttu setti mikinn svip á Húnavökuhelgina og Páll Óskar klikkaði ekki á ballinu og kvöldskemmtuninni. Bærinn var snyrtilegur og ekki skemmdu skreytingar prjónasnillinga bæjarins sem gerðu sér lítið fyrir og prjónuðu utan um fjöldan allan af ljósastaurum. Berglind Björnsdóttir mun eiga mestan heiðurinn af þessari frábæru hugmynd og ætti hún að fá prjónaða orðu frá bænum fyrir framtakið, sem hefur vakið mikla athygli ferðamanna í sumar og munu „Blöndóskar“ prjónakonur eiga myndir af verkum sínum víða um heim eftir sumarið. Mér skilst að taka eigi listaverkin niður í lok ágúst, en vonandi mæta pjrónakonur tvíefldar til leiks næsta sumar og segja þetta skemmtilega prjónagraff upp á nýjan leik.

Það má segja að varpað hafi verið fréttasprengju, þegar Húnahornið, fyrst fréttamiðla landsins, kom með þá frétt um miðjan júní að stefnt væri að því að reisa álver við Hafursstaði. Húnavatnssýsla var allt í einu komin á kortið og á hvers manns vörum. Það leið svo auðvitað ekki á löngu þar til eingöngu neikvæðar raddir tóku að heyrast í fjölmiðlum og þessari hugmynd fundið allt til foráttu enda venjan sú, ef eitthvað á að gera að gagni í atvinnumálum á landsbyggðinni. Fólk hér um slóðir er kannski ekki endilega að biðja  um álver enda hlýtur að vera margskonar stóryðja til sem gæti skapað hér atvinnu sem nýtti rafmagnið frá Blöndu og ætti að vera sjálfsögð sanngirniskrafa. (Hvar er nú gagnaverið). Það vita allir sem hér búa að við verðum að fá einhverja innspýtingu í atvinnumál á þessu svæði ef fólk vill búa hér og sporna á við viðvarandi fólksflótta. Verið er að bjóða land undir verksmiðjur á einu öruggasta svæði landsins, gagnvart jarðskjálftum og eldgosum. Það eru fjórir þéttbýlisstaðir í næsta nágrenni þar sem fólk sem hefði atvinnu á þessum vinnustað gæti valið sér búsetu. Nú er auðvitað umræðan um stóryðju við Hafursstaði löngu þögnuð í fjörmiðlum, annað rifrildisefni komið í staðinn, en vonandi halda sveitastjórnarmennirnir okkar hér á Norðurlandi vestra áfram að hamra járnið og gefast ekki upp enda er ég nokkuð viss um að hugmyndin sem mætur brottfluttur Húnvetningur ræddi í útvarpinu um daginn hjálpar okkur ekki mikið í atvinnumálunum en hann vill tefla kveðskap fram gegn fólksflótta í héraðinu og frekar þóttu mér kaldar kveðju sem Blönduósingar fengu í pistli hér á Húnahorninu í sumar þar sem þeir voru kallaðir „vesalings aumingjar“ fyrir það eitt að reyna að efla hér atvinnu og bara hreinlega að reyna að lifa af hér í okkar heimabyggð.

Það er margt sem maður getur látið fara í taugarnar á sér og eitt af því sem pirrar mig, er þegar veðurfregnir í sjónvarpinu sýna engar hita- eða vindtölur alla leið frá Reykjavík til Akureyrar. Oftast eru vestfirðir hafðir með, en Borgarfjörður, Snæfellsnes, Strandir og Norðurland vestra er látið eiga sig og engar upplýsingar sýndar fyrr en í Eyjafirði. Á þessu svæði býr slatti af fólki sem lætur líka veðrið skipta sig máli og vill sjá veðurspá þó hún standist nú reyndar sjaldnast.

Við verðum að halda áfram að vonast eftir góðu veðri og mér finnst alveg sanngjarnt að við fengjum nú gott haust og snjólétt fram að jólum að minnsta kosti.

Smá löggufrétt að lokum sem þingmaðurinn okkar fyrrverandi Jón Bjarnason rakst á í blaði og hafði eftir í bloggi sínu. „Nær allir látnir blása hjá löggunni eftir verlunarmannahelgi.“

Njótið síðsumarkvöldanna kæru samferðamenn,
kveðja Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga