Nöldrið | 15. september 2015 - kl. 21:16
Septembernöldur

Í síðastliðnum ágústmánuði villtust þrír hestamenn í þoku á Grímstunguheiði. Kallaðar voru út björgunarsveitir til að leita mannanna og fundust þeir sem betur fer fljótlega. Ekkert amaði að þeim eða hrossunum. Þessi leit rataði í fréttir fjölmiðla og var mörgum skemmt sem heyrðu frásagnir Ríkisútvarpsins af atburðunum en snemma um morguninn var sagt frá því, „að leit væri hafin að hestamönnum sem hefðu villst í dimmri þoku. Væru hinir villtu á Kjalvegi norðan við Blönduós.“ Í fréttum seinna um morguninn var svo sagt frá því að mennirnir sem leitað var að „á Grímstunguheiði norðan Langjökuls“ væru fundnir. Hagyrðingar þessa lands voru ekki lengi að prjóna við fréttina og þessi vísa birtist samdægurs á, Leirnum.

Í þokunni vatnsföllin virtust skæð
og velflestum blöskraði ölduhæð
og keilur og marglyttur komu í ljós
„á Kjalvegi norðan við Blönduós.“

Maður reiknar alltaf með vönduðum vinnubrögðum hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins, en þarna hefur fréttabarn verið á vakt, eins og sagt er.

Ekki höfum við þurft að kvarta undan átroðningi erlendra ferðamann í sumar eins og sunnlendingar, enda eigum við engan Gullfoss né heldur Geysi. Kannski megum við líka þakka fyrir að vera laus við þá örtröð sem þeir hafa mátt búa við þar sem ferðamenn bæði míga og skíta (fyrirgefið orðbragðið) að sögn, nánast hvar sem er. Mér segja fróðir menn að hér hafi  verið töluverð aukning erlendra ferðamanna í sumar og verslanir, veitingastaðir, já og sundlaugin notið góðs af. Ég hef samt á tilfinningunni að ekki hafi verið mikil aðsókn að söfnum og setrum í bænum, hverju sem það sætir. Íslendingar á faraldsfæti hafa ekki mikið heimsótt Norðurlandið í ár enda bauð veðráttan ekki upp á mikið útipartý þetta sumarið.

Ég er hræddur um að margir kartöfluræktendur yfirgefi Selvíkurgarðinn eftir þetta sumar. Nú er svo komið í mörgum görðunum að leita þarf að kartöflugrösunum sem eru týnd í fjölbreytilegu illgresi, sem hefur náð að yfirtaka garðinn allan. Eðlilega þarf ekki að reikna með mikilli uppskeru þegar þessir fáu sólargeislar sem skinu hér í sumar náðu aldrei að kartöflugrösunum. Þó fækkað hafi þeim sem rækta vilja kartöflur veit ég að margir eiga eftir að sakna þess að geta ekki farið í Selvíkina á haustin og  tekið upp úr sínum eigin garði. En fari fram sem horfir og ekkert verður að gert sé ég ekki annað en kartöfluræktun í Selvíkinni sé búið spil.

Á hverju voru kemur ákall frá bænum um að íbúar hreinsi rusl og drasl af lóðum sínum og geri almennt hreint fyrir sínum dyrum. Bæjarstarfsmenn og unglingavinnan hafa svo séð um að halda götum og torgum hreinum og tekist það í flestum tilfellum vel. Meira að segja gerðist það ótrúlega að klippt var og snyrt í kringum trjábeðið í möninni við Sunnubraut sem oft hefur verið nöldrað um hér og þvílíkur munur, það hljóta allir að sjá. Það eru helst mölbrotnar gangstéttir og illgresisfjandinn sem stingur í augu en Blönduós er víst ekki eini bærinn sem berst við slíka drauga. Þess vegna er það sorglegt að sjá, ennþá einu sinni bíldruslum stillt upp við þjóðveg 1 þannig að enginn sem ekur gegnum bæinn kemst hjá því að sjá þessa handónýtu druslu sem hefur verið til sýnis í allt sumar. Fjarlægið nú ósómann STRAX.

Ég las grein í dagblaði nýlega þar sem ég rakst á orð sem ég hafði ekki heyrt fyrr. Þetta er orðið skræfuskaft en tól þetta er að finna í bílum og trúlega mest notað af farþegum. Nú má vera að lesendum Nöldra sé þetta orð tamt í munni, en þeir sem ekki hafa heyrt það geta nú farið út í bílinn sinn og leitað að skræfuskaftinu.

Með von um góða haustdaga kveð ég að sinni.

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga