Ragnhildur og líkanið af Auðkúlukirkju
Ragnhildur og líkanið af Auðkúlukirkju
Líkanið af Auðkúlukirkja í smíðum
Líkanið af Auðkúlukirkja í smíðum
Handverk Ragnhildar
Handverk Ragnhildar
Handverk Ragnhildar
Handverk Ragnhildar
Fréttir | 08. október 2015 - kl. 23:00
Smíðaði líkan af Auðkúlukirkju

Ragnhildur Þórðardóttir frá Grund í Svínadal hefur stundað útskurð í Gerðubergi í Reykjavík á veturna síðastliðin ár. Hún hefur skorið út mikið af klukkum og barómetum ásamt ýmsu fleiru. Síðastliðinn vetur hóf hún smíði á líkani af Auðkúlukirkju og lauk hún verkinu fyrir vorið. Líkanið er smíðað úr pappa og timbri og er hin mesta listasmíð.

Ragnhildur hefur búið á Merkjalæk í Svínadal síðan 1978 og býr þar enn ásamt eiginmanni sínum Sigurði H. Péturssyni, fyrrum dýralækni. Þau dvelja í Reykjavík að vetrinum til en eru í sveitinni á sumrin. Foreldrar Ragnhildar eru hjónin Guðrún Jakobsdóttir og Þórður Þorsteinsson á Grund í Svínadal.

Séra Stefán M. Jónsson á Auðkúlu lét byggja Auðkúlukirkju á eigin kostnað en hann var langafi Ragnhildar. Kirkjusmiður var Þorsteinn Sigurðsson, en hann byggði margar kirkjur í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Kirkjan var vígð 9. september árið 1894.

Kirkjutröppurnar á líkani Ragnhildar eru eins og þær voru upphaflega en ekki eins og þær eru nú. Lyfta má þakinu á líkaninu og setja ljós inn í það. Líkanið er hin mesta listasmíð sem og annað handverk sem Ragnhildur hefur gert eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga