Nöldrið | 18. október 2015 - kl. 08:40
Októbernöldur

Ljónið okkar lætur ekki deigan síga og ætlar að vera viðbúin fjölgun ferðamanna hér á svæðinu. Það var ekki liðin vika frá því að Húnahornið birti frétt um að samkeppnisaðili hans, Lárus Glaðheimabóndi og hótelhaldari, hefði  uppi  áform um að stækka Hótel Blönduós um 400 fermetra og fjölga gistiherbergjum úr 16 í 34 þegar Jónas á Ljóninu tilkynnir að hann muni tvöfalda gistiaðstöðu hjá sér, með byggingu þriggja smáhýsa til viðbótar við þau þrjú sem fyrir eru. Þá ætlar hann að laða að lúna ferðamenn með því að bjóða upp á afslöppun í sauna-tunnu sem hann hyggst reisa á athafnasvæði sínu. Það má því segja að helstu athafnamenn bæjarins ætla að vera viðbúnir auknum straumi ferðamanna á svæðið.

Nú hafa verið stofnuð Hollvinasamtök Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna. Ég get ekki séð  að Austur-Húnvetninga eigi fulltrúa í stjórn þessara nýja samtaka, þó safnið sé byggðasafn fyrir Húnavatnssýslurnar báðar ásamt Strandasýslu. Það mun hafa verið á fimmta áratug síðustu aldar að farið var að ræða um að koma upp byggðasafni í sýslunni, ekki hvað síst fyrir hvatningu Húnvetningafélagsins í Reykjavík sem sýndi málinu mikinn áhuga og hófst þegar handa um söfnun muna. Í bókinni Héraðsstjórn í Húnaþingi eftir Braga Guðmundsson má lesa um aðdraganda stofnun byggðasafnsins.

Fljótlega kom upp sú hugmynd að hagkvæmt væri að austur- og vestursýslan stæðu saman að slíkur safni. Þá upphófst ágreiningur um hvar safninu skyldi valinn staður. Var rætt m.a. um Blönduós, Þingeyrar, Reyki á Reykjabraut og Reyki í Hrútafirði. Eðli málsins samkvæmt voru Vestur-Húnvetningar fylgjandi staðsetningi safnsins á Reykjum í Hrútafirði, en seint á sjötta áratugnum bókar sýslunefnd A-Hún. að hún sé efist um „að gefendur muna til væntanlegs byggðasafns A-Hún. samþykki að þessir munir verði sendir út úr sýslunni, þar sem gert var ráð fyrir því, er söfnunin fór fram, að safnið yrði staðsett á Blönduósi.“ Þegar hér var komið sögu, í árslok 1958 voru skrásettir munir hjá Húnvetningafélaginu í Reykjavík 800 talsins og eitthvað hafði verið safnað hér norðan heiða.

Árið 1962 er samþykkt að byggja hús á Reykjatanga yfir hákarlaskipið Ófeig og eftir mikil átök um málið í sýslunefnd var loks ákveðið að Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna skyldi valinn staður þar og var safnið formlega opnað 9. júlí 1967. Ég er ekki viss um að margir hér um slóðir gefi lengur muni til þessa safns og trúað gæti ég að hér sé fullt af fólki sem hefur ekki hugmynd um að sýslan eigi hlut í þessu því. Það er kannski vegna áhugaleysis heimamanna hér sem ég kannaðist ekki við neinn fulltrúa í stjórn þessara nýstofnuðu hollvinasamtaka og er það slæmt, því þó svo að átök hafi verið um stofnun þessa safns á sínum tíma og fólki, sem sýnir svona söfnun áhuga gremjist enn að þetta safn er staðsett svona langt frá okkur, þá eigum við þarna marga merka muni sem segja sögu okkar frá fyrri árum og öldum og okkur ber að sýna virðingu.  

Ég verð svo að bæta hér við samþykkt sem gerð var á sýslufundi 1962 eftir mikil átök um byggðasafnsmálið: „Allir munir er afhentir verða úr Austur-Húnavatnssýslu, skulu vandlega merktir og skrásettir í hinu sameiginlega byggðasafni og skulu þeir vera endurkræfir, ef síðar meir yrði það sjónamið ofan á, að Austur-Húnvetningum hentaði betur að vera sér með sitt byggðasafn á öðrum stað.“ Ég get ekki séð að sá tími sé kominn að það henti okkur betur að bæta við einu safninu enn hér á Blönduósi, en hvað verður, kemur í ljós.

Nú haustar að, kartöflur, rófur og annar jarðargróður löngu kominn í hús og maður veður laufið í ökla. Duglega fólkið búið að taka slátur og  styrktarsjóðsball á næstu grösum.  Lítum björtum augum til komandi vetrar.

Kær kveðja
Nöldri

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga