Fréttir | 02. maí 2016 - kl. 07:40
Töfrasýning á Skagaströnd

Einar Mikael töframaður heimsækir Skagaströnd á morgun, þriðjudaginn 3. maí og verður með töfrasýningu í Fellsborg klukkan 19:30. Í samtali við Húnahornið segist Einar hlakka mikið til að koma og gleðja fjölskyldur á Skagaströnd og nágrenni. „Sýningin er troðfull af flottum sjónhverfingum og nýjum atriðum sem aldrei hafa sést áður á Íslandi. Þetta er það besta sem ég hef gert á ferlinum,“ segir Einar.

Hann segir að margir séu búnir að spyrja sig hvenær hann komi aftur norður og nú sé komið að því. „Ég hlakka rosalega til að koma og leyfa öllum að upplifa ógleymanlega skemmtun.“

Þegar Einar er spurður út í framtíðina segir hann að nú sé kominn tími til að setja töfrasprotann á hilluna. Já, þetta eru síðustu töfrasýningarnar á Íslandi. Ég ætla að setja töfrasprotann á hilluna í smá hvíld næstu sjö árin. Síðustu sjö ár hafa verið eftirminnilegustu ár ævi minnar og ég hef fengið að kynnast Íslandi og fólkinu í landinu á allt annan hátt. Ég er rosalega þakklátur fyrir alla þá sem hafa sýnt mér áhuga,“ segir Einar hress að vanda.

Miðar á sýninguna verða seldir við hurð á Fellsborg og kosta 2.000 krónur.

Hér má sjámyndbrot úr sýningu Einars: https://www.youtube.com/watch?v=YO_IudTthOc

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga