Nöldrið | 10. júní 2016 - kl. 22:21
Júní nöldur

Prjónasnillingar bæjarins gleðja heimamenn og ferðafólk annað sumarið í röð með „prjónagraffi“, sem þær hengja á ljósastaura bæjarins. Nú setja þær kalla og kellingar í lopapeysum á hvern staurinn af örðum og segja gárungarnir að sjá megi svip ýmissa bæjarbúa á andlitunum. Það er vel við hæfi að prjónaskapur sé í hávegum hafður í bænum í tilefni Prjónagleðinnar, alþjóðlegrar prjónaráðstefnu sem haldin er hér um þessar mundir.

Eftir kalt vor hefur veðrið leikið við okkur síðastliðnar tvær vikur. Gróðurinn hefur tekið við sér í sólinni og létt er yfir mannfólkinu. Það eru mikil umskifti sem orðið hafa við gömlu vélsmiðjuna, en til viðbótar við veitingastaðinn sem þar hefur verið rekinn í nokkur er þar nú komið fullkomið og snyrtilegt bílaverkstæði, ásamt verslun með blóm og ýmsan varning. Þegar lagfæringum á framhlið hússins lýkur hefur húsið tekið algjörum stakkaskiptum og sómir sér vel við þjóðveg 1.

Ljótt er að sjá hvernig Blöndubrúin lítur út eftir að ekið var á hlífðarplast við göngustíginn á brúnni. Ekki kæmi mér það á óvart að brúin fengi að vera svona útlits í sumar og ekki minnkar slysahætta á brúnni við þetta, enda hafa borist þau skilaboð frá Vegagerðinni að byrjað verði á lagfæringum við brúna í haust. Samkvæmt því sem sagt var á borgarafundi sem haldinn var, að mig minnir í mars í vetur, áttu endurbætur við brúna að hefjast strax í sumar og þá yrði hringtorgið einnig stækkað til muna og blikkljósið ofan við Ámundakinnina yrði komið í lag innan nokkurra daga. Ekkert af þessu hefur gerst og þá má ég til með að geta þess að tunnan undir pappír, sem koma átti á hvert heimili í maí hefur ekki sést ennþá a.m.k. ekki í minni götu. Þá geri ég mér litlar vonir um að götumerkingar og ýmsar upplýsingar til ferðamanna sem rætt var um á þessum fundi sjá dagsins ljós þetta árið. Því ber svo aftur á móti að fagna að komin er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn með aðsetur í bóka- og skjalasafnshúsinu. Það er löngu tímabært að þeir sem eftir því leita eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum um þetta svæði  á einum stað. Ég hef mikla trú á nýjum starfsmanni upplýsingamiðstöðvarinnar og að þar verði staðið vel að verki.

Gaman var að heyra af stórgóðri laxveiði strax á fyrsta degi í Blöndu og vonandi verður áin gjöful á laxinn í ár eins og í fyrra sumar. Mér er sagt að lítið sé um að heimamenn kaupi sér veiðileyfi í Blöndu og setur fólk eflaust fyrir sig hátt verð á veiðileyfum, svo mest er um menn misjafnlega langt að komna sem veiða í ánni. Það er því ekki skrítið að veiðimennirnir furði sig á staðsetningu veiðihússins, langt upp í Langadal. Þvílík skammsýni og fádæma endalaus hrepparígur sem ómögulegt virðist að losna við, að byggja ekki húsið í Kúagirðingunni, rétt við aðal veiðistaðina og þjónustuna hér á Blönduósi.

Ég hef þá trú að sumarið verði gott, eitthvað í líkingu við þessa fyrstu daga júní mánaðar. Framundan eru 17. júní hátíðarhöld, Smábæjaleikar og svo Húnavaka, fyrir nú utan allar hátíðirnar í sveitarfélögunum hér allt í kring, svo ég held að enginn þurfi að láta sér leiðast í sumar.

Njótið sumarsins
Kveðja, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga