Fréttir | 30. júní 2016 - kl. 11:49
Gamlar hrossaræktunarlínur
Vinsæl bók núna einnig til á ensku

Í tilefni Landsmóts hestamanna á Hólum er komin út ensk útgáfa bókar um gamlar hrossaræktunarlínur sem hefur verið mjög vinsæl undanfarið í þýskumælandi löndum. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Þróunarsjóður hestamennskunnar veittu styrkir til bókarinnar sem heitir „Old breeding lines". Bókin fæst m.a. á Sögusetrinu íslenska hestsins á Hólum, hjá Eymundsson og hjá höfundinum sjálfum sem er Caroline Kerstin Mende.

Í tilkynningu frá útgefanda segir að erlendis hafi myndast lífsstíll sem sé nátengdur íslenska hestinum og hestamenn sem eigi íslenska hesta hafi oftast sitt eigin samfélag, aðskilið frá hestamönnum annarra hrossakynja. Samt hafi vantað algjörlega bók um ræktunarsögu íslenska hestsins þótt mörgum erlendum hestamönnum séu bæjarnöfnin eins og Kolkuós eða Hindisvík kunnug. 

Bókin „Alte Zuchtlinien", sem var gefin út á þýsku í september 2015 og er fáanleg núna líka á ensku sem „Old Breeding Lines", kynnir gömlu línurnar, auk þess býður hún upp á fróðleik um líf hesta og manna á Íslandi fyrr og nú, m.a. um stóðréttir sem eru sérstakt fyrirbæri á Norðurlandi vestra. Bókin nýtur mikilla vinsælda í þýskumælandi löndum, það hafa selst þegar rúmlega 1.200 eintök og margoft var spurt hvort bókin væri ekki líka til á ensku. 

Forlagið Verlag Alpha Umi sérhæfir sig í bókum um íslensk efni til að fræða Íslandsvini og ferðamenn. Íslensk húsdýr standa í forgrunni, fyrst og fremst kindur og hestar. Fram¬kvæmda-stjórinn og höfundur bókanna er Caroline Kerstin Mende eða Karólína sem býr á fyrrverandi eyðijörðinni Hvammshlíð.

Í tilkynningu frá forlaginu segir að bækurnar henti sérstaklega vel sem tækifærisgjöf handa erlendum vinum og vandamönnum, en einnig sem söluvara fyrir alla sem séu einhvern veginn tengdir erlendum hestamönnum og ferðamönnum. Bókin inniheldur 82 blaðsíður og kostar 2.500 kr, forlagið veitir endurseljendum 25 til 35% afslátt. Hægt er að panta beint hjá Karólínu í tölvupósti info (hjá) verlag-alpha-umi.de eða í síma 865 8107. Nánari upplýsingar: www.verlag-alpha-umi.de/islenska

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga