Janus Daði og Arnar Freyr
Janus Daði og Arnar Freyr
Fréttir | 19. janúar 2017 - kl. 11:40
Að duga eða drepast

Nú er að duga eða drepast fyrir íslenska landsliðið í handbolta þegar það tekur á móti Makedóníu klukkan 16:45 í lokaumferð B-riðils á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í dag. Ísland þarf að vinna leikinn til að komast áfram í 16-liða úrslit. Húnvetningar vilja eigna sér, að hluta í það minnsta, tvo leikmenn í íslenska liðinu, þá Arnar Frey Arnarsson og Janus Daða Smárason.

Arnar Freyr Arnarsson er sonur sveitarstjóra Blönduósbæjar, Arnars Þórs Sævarssonar. Arnar Freyr er fæddur árið 1996 og uppalinn í Fram en leikur nú með IFK Kristianstad í Svíþjóð. Hann er línu- og varnarmaður og hefur staðið sig frábærlega í Frakklandi.

Janus Daði Smárason hefur einnig staðið sig vel en hann er sonur Smára Rafns Haraldssonar frá Litlu-Giljá í Austur-Húnavatnssýslu. Janus Daði er fæddur árið 1995 og hefur spilað með Haukum í Hafnarfirði en samdi á dögunum við lið Álaborgar í Danmörku.

Á vef Ríkisútvarpsins í dag með sjá viðtal við Janus Daða, sem er leikstjórnandi í íslenska landsliðinu. Hann segir að þetta verði jafn leikur sem geti farið á hvorn veginn sem er. „Nú er þetta dálítið að duga eða drepast,“ segir Janus Daði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga