Þingeyrakirkja
Þingeyrakirkja
Pistlar | 01. febrúar 2017 - kl. 09:56
Stökuspjall: Loksins fann ég feikna auð
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Vinsemd þín, nú veit ég það
var mér besta gjöfin.
Framar skilur okkur að 
ekkert nema gröfin.

segir Guttormur við Ísland -- og gat sagt það, hann gat talað við landið, hann bjó í öðru landi og hann hafði tekið þá erfiðu ákvörðun að hverfa frá sínu. Ljóðabók Guttorms var fyrir augum mér í uppvextinum, en opnaði hana aldrei eða velti því fyrir mér til hvers Jónas frændi væri að eiga þessa bók. Aftur hafði Jón bróðir hans uppáhald á vísum Káins og barnabörn hans minnast þess hve gaman var að heyra hann hampa ruglvísunni, sem Káinn kallar hringhenda hlunkhendu:

Það sem ég meina, sérðu, sko! –
vera ekki að neinu rugli;
bara að reyna að drepa tvo
steina með einum fugli. 

 Og Guttormur yrkir glæsilega um þennan kollega sinn:

K. N. eys af brunni birgða
brautir þeysir allra jarða.
Þessi Geysir gamanyrða
Guði reisir minnisvarða.

En Káinn flutti úr Eyjafirði, Guttormur af Austurlandi og mörgum þegnum máttu byggðirnar við Húnaflóa sjá á bak meðan Vesturfarir stóðu. En þeir komu einhverjir aftur heim, kannski bara í skrifum sínum eins og Erlendur á Mörk.

Einn rithöfundurinn til, Hulda Stefánsdóttir, var ekki bara húsmóðir og gestgjafi á fjölmennu heimili í þjóðbraut, þ.e. á Þingeyrum, hún stýrði líka Kvennaskólanum á Blönduósi og síðar Húsmæðraskóla Reykjavíkur í 12 ár en kom þá aftur til Kvennaskólans. Fjórar bækur fullar af fróðleik skrifar hún um samferðamenn sína. Hún fléttar þar vel við skemmtisögur, vísur og setningar sem hafðar voru eftir þeim orðheppnu eða sérlegu. Hún varð organisti í kirkjunni á Þingeyrum og segir þannig frá því:

„Þegar Erlendur Erlendsson brá búi á Hnausum og flutti til Reykjavíkur, vantaði organista í Þingeyrakirkju. Enginn í sveitinni vildi takast þann vanda á hendur og endaði það með því að ég spilaði í kirkjunni allmörg ár og æfði sönginn. Þá voru bara karlmenn í kórnum, ungir menn úr sveitinni og svo blessaður meðhjálparinn, Sigurður Erlendsson frá Stóru-Giljá." Hulda rifjar upp hreppsnefndarstörf manns síns, Jóns S. Pálmasonar á Þingeyrum sem lengi var í nefndinni og oddviti hennar 1928-1958. Hún rekur sögu gangnaseðilsins, sem kostaði heilan dag hjá nefndinni að semja og annan dag að skrifa þó Jón ætti ritvél, en tvírita þurfti seðilinn og annar var opnaður á Litlu-Giljá og gekk rétta boðleið fram í Hjallaland. Hinn var sendur frá Helgavatni og gekk þaðan út í Geirastaði meðan þeir voru í byggð. 

 Vatnsnesingurinn Ólöf frá Hlöðum orti:

Lengi var ég lítil, snauð
lagðist þungt í efa.
Loksins fann ég feikna auð
– fékk hann til að gefa.  

Hulda Pálsdóttir á Höllustöðum sótti sér menntun til kvennaskólans og í gagnfræðaskólann á Akureyri og stundaði barnakennslu áður en hún stofnaði heimili. Hún segir umbúðalaust frá misrétti kynjanna:„Til að byrja með var skopast bæði að kvenfélögum og kvennaskólum og þó meira að kvenfélögum, því í þá daga þóttu konur standa svo mikið að baki karla og hafa hvorki félagsþroska né vit til að vinna að opinberum málum, enda höfðu þær ekki fjárráð, ekki einu sinni yfir þeim eignum sem þær fengu í arf. " 

Önnur þjóðþekkt kona, Elínborg frá Tunguhálsi, var á skólanum og hefur arfleitt okkur af litskrúði minninga frá þeim tíma.

               Lokavísa: 

Að skrifa er mér yndi
og óskastund svo kær.
Þá leikur allt í lyndi
og lífið við mér hlær. Pétur Jakobsson

Ingi Heiðmar Jónsson

Vísað til:
Guttormur: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=29021 
Káinn: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=29023 
Erlendur Guðmundsson: http://stikill.123.is/blog/2009/01/08/337776/
Hulda á Höllustöðum segir frá kvennaskólaári sínu: 
http://stikill.123.is/blog/2014/07/02/vetur-a-kvennaskolanum---hp/ 
Elínborg Lárusdóttir: http://stikill.123.is/blog/2014/02/06/elinborg-larusdottir-i-kvennaskolanum-a-blond/ 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga