Frá landsþinginu. Ljósm: innanrikisraduneyti.is
Frá landsþinginu. Ljósm: innanrikisraduneyti.is
Fréttir | 25. mars 2017 - kl. 08:10
Sveitarfélög verði studd betur til sameininga

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vill sjá ákveðna hvata innbyggða í tekjustofnakerfi sveitarfélaga sem styddi betur við sameiningu þeirra. Tryggja þurfi að reglur Jöfnunarsjóðs sveitafélaga hjálpi vel þeim sveitarfélögum sem vilja sameinast og leitað verði leiða til að tryggja að slíkar sameiningar styrki stöðu sveitarfélaga sem ein meginstoð velferðar íbúanna. 

Þetta kom fram í ávarpi Jóns á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram í gær. Hann sagðist sjá fyrir sér að setja megi frekari hvata í kerfið þannig að sveitarfélög sjái ávinning og hagræði af því að sameinast. „Mín hugsun er sú að verulegir fjármunir gætu orðið til ráðstöfunar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum til að styrkja sveitarfélög við undirbúning sameiningar, endurskipulagningar og uppbyggingar í sameinuðu sveitarfélagi. Frumkvæði um þetta verður þó að koma frá sveitarfélögunum sjálfum. Ég hef hins vegar ákveðið að setja á fót verkefnishóp sem ætlað er að vinna að stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði en sú vinna yrði unnin í beinu framhaldi af því að nefnd um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins skili sinni niðurstöðu. Verkefnishópnum yrði ætlað að skoða frekari leiðir til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga, m.a. með hliðsjón af reynslu liðinna ára,“ sagði ráðherra ennfremur.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á Grand hóteli í Reykjavík. Alls mættu 160 sveitarstjórnarmenn og gestir til þingsins, 104 kjörnir fulltrúar með atkvæðisrétt frá 66 sveitarfélögum og 53 fulltrúar með málfrelsi og tillögurétt. Þá mættu þrír stjórnarmenn í sambandinu, sjö gestir og 23 starfsmenn. Enginn fulltrúi var frá átta sveitarfélögum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga