Nöldrið | 07. apríl 2014 - kl. 22:05
Aprílnöldur

Fimmtudaginn 27. mars vaknaði ég við hávært gæsagarg þegar fyrstu sumargestirnir flugu yfir húsið mitt og það var dásamlegur söngur sem sagði mér að senn kæmi vorið á vængum yfir sæinn. Já, veðrið var fallegt  síðustu daga marsmánaðar og farið að sjást í vetrargosa og krókusa í görðum sem gefur fyrirheit um litríkt sumar. Í pottunum við sundlaugina lét fólk eins og sumarið væri komið og baðaði sig í sólinni, þó hitamælir sýndi aðeins  tveggja stiga hita í forsælu.

Ég brá mér á leiksýningu hjá Leikfélagi Blönduóss og var það kærkomin leikhúsferð, því mér skilst að fjögur ár séu síðan LB setti leikrit á svið, svo það var kominn tími til. Það er skemmst frá því að segja að þetta var hin besta skemmtun og snjallt hjá leikhópnum og leikstjóra að finna þetta leikrit sem er eins og sniðið fyrir hópinn og þá meina ég allt unga fólkið sem hér stígur sín fyrstu skref á leiklistarbrautinni og stóð sig með stakri prýði.

Þetta er fjölmenn sýning og þarna mátti sjá efnilega nýliða í bland við gamla leikfélaga og þó ég sé enginn sérfræðingur í leikgagnrýni verð ég að hrósa sérstaklega nýliðanum Atla Einarssyni sem skilar aðalhlutverkinu og það engri smá rullu, með miklum glæsibrag og gamla jaxlinum Ívari Snorra sem mér fannst dásamlegur í skapvonda gamlingjanum. Ég þakka aðstandendum sýningarinnar fyrir skemmtilega kvöldstund.

Ég hef ekkert sett mig inni í þær erjur sem verið hafa vegna auglýsingaskilta við þjóðveginn og vona að athugasemdir mínar í janúarnöldinu hafi ekki hrundið þeim af stað. Það leiðir aftur á móti hugann að því hvort ekki séu allt of mörg skilti við veginn gegnum bæinn og sum komin til ára sinna og orðin lítið augnayndi. Mér finnst t.d. óþarfi að segja vegfarendum þrisvar sinnum að þeir séu að koma að Blönduósi og mætti fjarlægja blátt og ljótt Blönduós skilti sem er orðið litlaust og veðrað.  Falleg skilti með gagnlegum upplýsingum fyrir ferðafólk er allt í lagi að hafa en þau, eins og annað þurfa viðhald og of mikið skiltafargan virka hálf „sjoppulegt“ og spurning hvort ekki er betra að sameina auglýsingarnar á einu stóru skilti, frekar en að drita þessu út um alla móa.

Eins og öruggt er að farfuglarnir koma á vorin, þá koma líka holurnar sitt hvoru megin við Blöndubrúna, djúpar með hvössum brúnum og geta verið varasamar bílum og sérstaklega varasamar mótorhjólum. Við bæjarbúar þekkjum þessar holur og vörum okkur á þeim en þetta býður Vegagerðin okkur upp á ár eftir ár ásamt því að hundsa lagfæringar á brúnni þrátt fyrir beiðni bæjaryfirvalda um það. Hvað er hægt að gera til að vekja þessi nátttröll sem stjórna framkvæmdum í þessu landi og  gera endalaust upp á milli barnanna sinna. Það kom frétt um það í vetur að nú ætti Norðvesturlandið að fá innspýtingu í atvinnumálum. Ekki hef ég séð nein merki þess að unnið sé í þeim málum. Aftur á móti er nú leitað að hentugum landsvæði fyrir gagnaver á suðvesturhorninu. Hvar annars staðar!

Nú líður senn að páskum og Blönduósingar, eins og landsmenn allir hugsa sér gott til glóðarinnar að njóta þeirra frídaga sem þeir bjóða uppá. Gleðjumst á páskahátíðinni og fögnum sumri að henni lokinni. Og svona eitt í lokin. Mér finnst löngu tímabært að fjarlægja jólaskraut úr gluggum og jólasveina úr görðum þeir eru hálfgerð tímaskekkja þegar komið er fram á vor.

Sumarkveðja frá Nöldra.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga