Nöldrið | 18. maí 2014 - kl. 21:44
Maínöldur

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum segir í kvæði Jónasar Hallgrímssonar en svo kemur nöpur norðanáttin sem við, sem búum hér við Húnaflóann þekkjum svo vel.  En svona er sumarið okkar og nú er það komið til að vera með öllum sínum margbreytileika í veðurfari og auðvitað fögnum við því.

Þær eru ófáar stundirnar sem bæjarbúar vinna við hreinsun garða sinna og lóða á hverju vori til að fegra og snyrta í kringum sig. Óvenju mikill sandur var notaður á götur og gangstéttar s.l. vetur vegna klaka og hálku og margir svöruðu kallinu frá tæknideild bæjarins og sópuðu stéttar við sína lóð en þá kemur í ljós hvað gangstéttir bæjarins eru víða illa farnar og þá kemur líka í ljós bæjarblómið okkar fífillinn. Hann vex upp úr hverri rifu á stéttum og götum, í heimkeyrslum og bílaplönum, blóma- og trjábeðum og þó rétt sjáist í brum á birkiplöntum brosir hann blómstrandi framan í okkur og lofar gulu sumri. 

Hér hefur árum saman verið nöldrað yfir ónýta húsinu við Blöndubyggð 13 sem hefur loks verið fjarlægt og húrra fyrir því. Nú má sjá að hafnar eru framkvæmdir á Einarsnesinu þar sem fyrirhugað er að reisa fuglaskoðunarhús og verður spennandi að fylgjast með því. Þá er vert að þakka fyrir „brettagarðinn“ sem kominn er á skólalóðina.  Ég trúi því að þar eigi eftir að vera mikið fjör og mikið gaman.

Mikið er ég hjartanlega sammála þeim Herði Ríkarðssyni og Valgarði Hilmarssyni, efstu manna listanna sem hér bjóða fram í komandi sveitastjórnarkosningum, en þeir hafa  báðir skrifað pistla hér á Húnahornið þar sem þeir hvetja  til að heimamenn vinni í því að raforka frá Blönduvirkjum verði nýtt í atvinnusköpun hér á svæðinu. Ég segi nú bara þó fyrr hefði verið. Það var mikið framtaksleysi  heimamanna á sínum tíma að berjast ekki fyrir því að hér risi einhver arðbær iðnaður sem nýtti rafmagnið frá Blöndu þegar virkjunin væri tekin í notkun í stað þess að flytja orkuna alla burtu. Orku heimamanna var eytt í að mótmæla virkjuninni og aðal rökin voru þau að sauðfjárbúskapur hér í sýslunni legðist af vegna Blöndulóns. Það hefur nú ekki gerst ennþá. Þá nefna þeir félagar báðir þingsályktunartillöguna frá í janúar um átak í atvinnumálum í Austur-Húnavatnssýslu. Hefur einhver séð eitthvað gerast í þeim efnum?  Sé svo, hefur það farið fram hjá mér. Það er sannarlega verðugt verkefni nýrrar bæjarstjórnar að ýta á það verkefni. Það er ekki að sjá að mikill ágreiningur sé milli þessara tveggja lista sem hér bjóða fram og vonandi gengur samvinnan vel hjá því mæta fólki  sem við kjósum senn  í  forystu bæjarfélagsins.

Ég er  dyggur lesandi miðvikudagsbloggsins hans Jóns  Sig. og undanfarið hefur honum orðið tíðrætt um „skiltamálið mikla“ sem enn er óútkljáð og óvíst hvernig endar. Það beindi aftur á mót sjónum mínum að skilti sem stendur á mótum þjóðvegar 1 og Húnabrautar þar sem auglýst er bæði á íslensku og ensku:  Sveitabakarí og kaffihús.  Sveitabakarí rekur ekkert kaffihús hér lengur og hér er ekkert bakarí starfrækt. Skiltið er samt ekki tekið niður en gera má ráð fyrir því að þeir skeleggu menn sem tekið hafa að sér að rífa niður skilti í óþökk „eigenda“ fjarlægi þetta skilti kannski líka.

Svona í lokin, þá óska ég Lárusi Jónssyni og Kristínu dóttur hans bjartrar framtíðar í ferðaþjónustu hér í bænum eftir kaup þeirra á hótelinu. Við getum tekið á móti miklu fleiri ferðamönnum og höfum svo margt að bjóða þeim ef áhugi er fyrir hendi og nú er þessi rekstur góðu heilli kominn í hendur heimamanna. Það verður eflaust á brattann að sækja en við skulum hafa trú á dugnaði þeirra og bjartsýni. Og svona í lokin segi ég eins og unglingarnir: Plís setjið hefil bæði á „sýslumannsbrekkuna“ og dauðu trén í möninni við Sunnubrautina. Viljum við ekki öll fegra bæinn okkar?

Svo óska ég okkur öllum góðu og sólríku sumri og sendi öllum bestu kveðjur.
Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga