Framkvæmdir í Sýslumannsbrekkunni
Framkvæmdir í Sýslumannsbrekkunni
Fréttir | 07. júlí 2014 - kl. 08:21
Aðalgatan ekki malbikuð í sumar

Sýslumannsbrekkan á Blönduósi verður ekki malbikuð í sumar en framkvæmdir við endurnýjun Aðalgötunnar frá Tilraun og upp að kirkjugarðinum hafa staðið yfir síðan í maí. Í fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir kostnaði við framkvæmdir við jarðvegsskipti og lagnir að fjárhæð 8 milljónir króna og er gert ráð fyrir að malbikun brekkunnar muni kosta 7,3 milljónir króna. Ekki var gert ráð fyrir þeirri fjárhæð í fjárhagsáætluninni og því hefur þessum þætti verksins verið vísað til fjárhagsáætlunar næsta árs.

Á fyrsta fundi byggðaráðs Blönduósbæjar sem haldinn var 25. júní síðastliðinn kynnti sveitarstjóri bréf frá tæknideild Blönduósbæjar þar sem gerð var grein fyrir kostnaði við malbikun og lagningu kantsteins við Aðalgötuna. Kostnaður við malbikun er áætlaður 7,3 milljónir króna og kostnaður við kantstein er áætlaður 550 þúsund krónur. Þá er áætlað að kostnaður við að laga og breyta gangstétt við húsið Tilraun verði um 500 þúsund krónur. Samtals er því áætlað að kostnaður við götuna muni nema um 16,7 milljónum króna.

Eins og áður sagði er í fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2014 eingöngu gert ráð fyrir kostnaði við framkvæmdir við jarðvegsskipti og lagnir að fjárhæð 8 milljónum króna og því þarf byggðaráð að vísa erindi um viðbótarfjármagn til þess að ljúka framkvæmdum til fjárhagsáætlunargerða fyrir árið 2015.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga