Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 21. júlí 2014 - kl. 18:56
Hátíðarhöld í Húnaþingi vestra

Það verður mikið um að vera í Húnaþingi vestra þessa vikuna. Hátíðin Eldur í Húnaþingi hefst á miðvikudaginn og stendur fram á sunnudag, Fjallaskokk USVH fer fram á fimmtudaginn, Grettishátíð hefst á föstudaginn og selatalningardagurinn mikli fer fram á sunnudaginn.

Eldur í Húnaþingi
Ýmsir viðburðir hafa skipað sér fastan sess á hátíðinni Eldur í Húnaþingi. Melló Músíka er einn af þeim. Sá viðburður fer fram á fimmtudagskvöldi og er vettvangur þar sem heimamenn koma fram og flytja tónlist, ýmist frumsamin eða ábreiður af lögum annarra.

Undanfarin ár hafa verið haldnir tónleikar í Borgarvirki á föstudagskvöldinu. Listamenn eins og Ragnhildur Gíslad., KK, Egill Ólafsson, Hörður Torfa, Regína Ósk og okkar eigin Ásgeir Trausti hafa haldið tónleika þar í guðs grænni náttúrunni. Borgarvirki er einstakur staður og virkilega sérstakt að upplifa tónleika þar.

Á laugardeginum er svo fjölskyldudagurinn haldinn hátíðlegur. Undanfarin ár hefur verið boðið upp á andlitsmálningu og hoppukastala fyrir yngri kynslóðina og grill fyrir alla fjölskylduna. Ásamt því að keppt er á milli fyrirtækja og ungir sem aldnir spreyta sig í sápufótboltakeppni.Hátíðinni lýkur svo á laugardagskvöldinu með dansleik. Undanfarin ár hafa hljómsveitir á borð við Buff, Í Svörtum Fötum, Skítamóral og Sniglabandið skemmt hátíðargestum á lokadansleiknum. Nánari upplýsingar um hátíðina Eldur í Húnaþingi má finna á www.eldurhunathing.com.

Grettishátíð
Grettishátíðin er haldin í Grettisbóli á Laugarbakka 25.-27. júlí. Hátíðin hefst með víkinganámskeiði fyrir börn sem hefst á morgun þriðjudag. Á hátíðinni verður handverk úr héraðinu til sýnis og vinnubrögð kennd af fornum sið. Haldin verða nokkur örnámskeið þar sem gestir geta kynnst fjölbreyttri handverksframleiðslu. Á útisvæði Grettisbóls verða víkingaleikir í boði fyrir börn á öllum aldri. Miðfjarðarleikarnir í Kubb fara fram á laugardaginn og fjölbreytt handverk og víkingabúningar verða til sýnis og sölu á svæðinu. Grettisbikarinn, aflraunakeppni karla og kvenna fer svo fram á sunnudaginn. Grettisbikar er veittur til sterkasta karlmanns og konu úr Húnaþingi vestra. Skráning í aflraunakeppnina verður á staðnum og á grettistakses@gmali.com. Nánari upplýsingar um Grettishátíðina má finna á www.grettistak.is.

Selatalningin mikla
Sunnudaginn 27. júlí fer Selatalningin mikla. Taldir verða selir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi á sama tíma.  Þetta er í áttunda sinn sem talningin fer fram. Talningin fer fram með aðstoð sjálfboðaliða. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir um að skrá sig með því að senda póst á selasetur@selasetur.is. Sjá nánar á www.selasetur.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga