Fréttir | 23. júlí 2014 - kl. 09:54
Niðurstaðan í samræmi við umræðuskjöl
Bjarni Stefánsson verður sýslumaður á Norðurlandi vestra

Skipunarbréf til þeirra níu sem fá sýslumannsembætti, samkvæmt nýjum lögum um sýslumannsembætti, sem taka gildi þann 1. janúar næstkomandi, verða send til viðkomandi úr innanríkisráðuneytinu í vikunni, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Eins og fram hefur komið í fréttum verður sýslumannsembættum á landinu fækkað úr 24 í 9 og sömuleiðis verður lögregluumdæmum og þar með embættum lögreglustjóra fækkað úr 15 í 9.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi, verði sýslumaður á Norðurlandi vestra. Aðalstöðvar sýslumanns á Norðurlandi vestra verða á Blönduósi, en aðalstöðvar lögreglunnar verða á Sauðárkróki.

Ef heimildir Morgunblaðsins eru réttar er niðurstaðan í samræmi við umræðuskjöl sem innanríkisráðuneytið birti í byrjun síðasta mánaðar og ætluð voru til kynningar og samráðs varðandi reglugerð um umdæmismörk og starfsstöðvar lögregluembætta annars vegar og sýslumannsembætta hinsvegar.

Í umræðuskjölunum kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að aðalskrifstofa í umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi vestra verði á Blönduósi. Gert er ráð fyrir að sýsluskrifstofa verði á Sauðárkróki. Aðalskrifstofa sýslumanns er aðsetur hans og verður þar veitt öll sú þjónusta sem sýslumönnum ber að veita samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Á sýsluskrifstofum verður veitt sama þjónusta og á aðalskrifstofu sýslumanns.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga