Stórlax úr Víðidalsá
Stórlax úr Víðidalsá
Fréttir | 25. júlí 2014 - kl. 15:08
Blanda fyrst yfir 1000 laxa

Blanda er fyrsta laxveiðiáin á landinu til að fara yfir 1000 veidda laxa í sumar en m.v. tölur sem birtar eru vikulega á vef Landssambands veiðifélaga voru komnir 1060 laxar á land síðastliðinn miðvikudag. Laxinn virðist vera dreifður um alla á því vel hefur veist á öllum svæðunum fjórum. Á vef Laxár, leigutaka árinnar, segir að veiði á svæði III sé að nálgast 50 laxa og sömu sögu sé að segja um svæði II. Þá hafi einnig verið ágætis gangur á svæði IV.

Sagt er frá því á vefnum Vötn og veiði að veiðst hafi stórlax í Víðidalsá í vikunni. Laxinn var 102 sentímetrar að lengd, líklega á bilinu 22-23 pund. Laxinn kom af neðsta svæðinu og var hinn glæsilegast eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem fengin er að láni af Facebook síðu Víðidalsár. Víðidalsá er nú komin í 190 laxa en alls er þar veitt á níu stangir.

Alls hafa verið veiddir 243 laxar í Vatnsdalsá en þar er veitt á sjö stangir. Er það heldur færri laxar en á sama tíma í fyrra en þá voru komnir um 320 laxar á land. Miðfjarðará er komin í 471 lax en þar er veitt á tíu stangir. Er það helmingi minni veiði en á sama tíma í fyrra þegar áin var komin yfir 1000 laxa. Laxá á Ásum er komin í 331 lax en einungis er veitt á tvær stangir í ánni. Á sama tíma í fyrra var búið að veiða yfir 400 laxa í Ásunum.

Almennt sé er veiðin í húnvetnsku ánum heldur minni sem af er sumri í samanburði við sama tíma í fyrrasumar. Samt sem áður geta veiðimenn í Húnaþingi vel við unað því af helstu veiðiám á landinu eru árnar á Norðurlandi að standa sig vel.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga