Fréttir | 25. júlí 2014 - kl. 14:20
Grettishátíðin hófst í dag

Í vikunni var haldið í Grettisbóli víkinganámskeið fyrir upprennandi víkinga sem tókst með miklum sóma. Tíu krakkar sóttu námskeiðið og nutu þess að gerast víkingar um tíma í blíðviðrinu sem er í Húnaþingi þessa dagana. Grettishátíðin hófst í dag í Grettisbóli á Laugarbakka og er dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt.

Á víkinganámskeiðinu klæddust börnin víkingaklæðum, elduðu víkingamat og smíðuðu vopn. Þau reistu víkingatjald fóru í ýmsa leiki, spiluðu kubb og skutu af boga. Svo eitthvað sé nefnt af fjölbreyttri dagskrá. Námskeiðið tókst með miklum sóma, enda frábærir krakkar sem tóku þátt. Á vef Grettistaks má sjá myndir frá námskeiðinu en þaðan er meðfylgjandi mynd fengin að láni.

Fyrirhugað er að halda tvö önnur víkinganámskeið í sumar ef næg þátttaka verður. Dagana 29.-30. júlí verður víkinganámskeið fyrir aldurinn 10-13 ára og 5-6. ágúst fyrir aldurinn 6-10 ára.

Grettishátíð hefst í dag með fjölbreyttri dagskrá í Grettisbóli á Laugarbakka. Spes Sveitamarkaður er opinn alla daga, víkingatjöld eru komin á svæðið og þar verður sýnt handverk og handverksvinnsla. Víkingaleikir verða í gangi á svæðinu, hægt að skjóta úr boga, fara í kubbspil og hnefatafl og fleiri forna leiki. Víkingar verða á svæðinu og sýna vopn og bardaga.

Bent er sérstaklega á að klukkan 7:00 á laugardagskvöldið verður kveikt upp í grillinu í Grettishringnum og opið fyrir alla að mæta með kjöt og annað góðmeti á grillið og njóta þess að borða kræsingarnar í góðum félagsskap í Grettishringnum. Víkingaleikir verða á staðnum, kubbspil, bogfimi, axarkast, aflraunir og fleira til að skemmta sér við.

Á sunnudeginum er síðan hin árlega aflraunakeppni um Grettisbikarinn, þar sem heimafólk keppir um titilinn sterkasti karl og kona Húnaþings vestra, en allir eiga kost á að reyna sig í keppninni. Finna má reglur keppninnar á www.grettistak.is og skráning á staðnum og á netfangið grettistakses@gmail.com.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga