Mynd: Bjsv. Húnar
Mynd: Bjsv. Húnar
Fréttir | 28. júlí 2014 - kl. 09:27
Annasöm vika hjá Húnum

Á vef Björgunarsveitar Húna er sagt frá fjölbreyttum verkefnum sveitarinnar í síðustu viku. Fyrsta verkefni hennar var að vinna að undirbúningi Fjallaskokksins yfir Vatnsnesfjall og voru farðar tvær vinnuferðir yfir fjallið til að laga, bæta og yfirfara merkingar. Björgunarsveitarmenn mönnuðu svo þrjár stöðvar á meðan skokkið stóð yfir.

Björgunarsveitin var með flugeldasýningu í tengslum við opnunarhátíð Elds í Húnaþingi. Var sýningin haldin á norðurgarði  Hvammstangahafnar. Allan veg að undirbúning sýningarinnar hafði Ævar Smári.

Á þriðjudagskvöldið óskaði lögreglan eftir að sveitin aðstoðaði ferðafólk sem átti í vandræðum með bíl sinn á Víðidalstunguheiði en hann sat fastur í drullupytti á veginum. Um eina og hálfa klukkustund tók að losa bílinn sem var stór Dodge pallbíll með Camper á pallinum. Ferðafólkinu var svo fylgt niður að Hrappstöðum.

Á miðvikudaginn kom önnur beiðni um aðstoð en þá hefði annar bíll fests í sama pytti á Víðidalstunguheiði. Betur gekk að ná þeim bíl upp úr pyttinum enda léttari en sá sem festi sig á þriðjudagskvöldinu. Eftir að bílnum var náð upp var ferðafólkinu fylgt niður af heiðinni. Í báðum þessara tilvika hafði þetta ferðafólk hafið ferðalag sitt í Húsafelli, en Víðidalstunguheiðin er lokuð að norðanverðu.

Á föstudaginn eftir hádegi kom svo beiðni um verðmætabjörgun á Holtavörðuheiði en flutningabíll með trailer lenti utan vegar við Bláhæð. Unnið var við losun farmsins og ná bílnum upp á veg fram á kvöld.

Sjá nánar á vef Húna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga