Mynd: Hunathing.is
Mynd: Hunathing.is
Fréttir | 30. júlí 2014 - kl. 17:14
Umhverfisviðurkenningar í Húnaþingi vestra

Árlega veitir Húnaþing vestra þeim aðilum viðurkenningu sem þótt hafa verið til fyrirmyndar við fegrun og hirðingu lóða/landareigna sinna. Í flokki fyrirtækjalóða hlaut Leirhús Grétu – Litla Ósi viðurkenningu og í flokki einkalóða var Hlíðarvegur 11 á Hvammstanga viðurkenningu. Í flokki bændabýla varð fyrir valinu Miðhóp í Víðidal.

Nefnd vegna umhverfisviðurkenninga er skipuð af sveitarstjórn og heldur nefndin utan um valið. Nefndin samanstendur af Ínu Björk Ársælsdóttur, Umhverfisstjóra, Erlu Björg Kristinsdóttur, Jóhannesi Erlendssyni og Sigríði Hjaltadóttur.

Umhverfisviðurkenningar 2014 voru veittar á fjölskylduhátíðinni Eldur í Húnaþingi laugardaginn 26. júlí síðastliðinn. Í flokki fyrirtækjalóða/atvinnuhúsnæðis hlaut Leirhús Grétu – Litla Ósi viðurkenningu fyrir skemmtilegt samspil íbúðarhúsnæðis og galleríis/vinnustofu, sem skapar fallega ásýnd og aðkomu viðskiptavina. Eigendur eru Gréta Jósefsdóttir og Gunnar Þorvaldsson. Í flokki einkalóða var valin Hlíðarvegur 11, Hvammstanga fyrir fallega, gróna og vel hirta einkalóð, eigendur Björk Magnúsdóttir og Hallmundur Guðmundsson. Í flokki bændabýla varð fyrir valinu Miðhóp í Víðidal fyrir snyrtilega aðkomu, fallegan og gróin einkagarð við íbúðarhúsið. Mikil skjólbeltaræktun gerir umhverfið aðlaðandi hlýlegt. Eigendur eru Elín Kristín Guðmundsdóttir og Ólafur Benediktsson.

Á vef Húnaþings vestra segir að allar þessar lóðir/landareignir beri eigendum sínum gott vitni um atorku og umhyggju fyrir fallegu og snyrtilegu umhverfi.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir oddviti Húnaþings vestra, afhenti vinningshöfunum innrammað viðurkenningarskjal og konfektkassa í viðurkenningarskyni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga