Framkvæmdir í Sýslumannsbrekkunni
Framkvæmdir í Sýslumannsbrekkunni
Fréttir | 01. ágúst 2014 - kl. 16:51
Klæðning í stað malbiks á Sýslumannsbrekkuna

Bæjarstjóra Blönduósbæjar og yfirmanni tæknideildar bæjarins hafa verið falið að ganga til samninga við Borgarverk um klæðningu á Sýslumannsbrekkuna og verður verkið unnið á næstu vikum. Byggðaráð Blönduósbæjar fól á dögunum bæjarstjóra að afla tilboðs í lagningu klæðningar í stað malbiks í Aðalgötuna og barst tilboð frá Borgarverki.

Í fundargerð byggðaráðs frá 30. júlí síðastliðnum segir að kostnaður við þessa leið sé mun lægri heldur en sú leið sem lagt var upp með í byrjun. Þar segir einnig að verkið verði unnið á næstu vikum. Áætlaður kostnaður er þó ekki tilgreindur í fundargerðinni.

Byggðaráðið fjallaði um framkvæmdirnar á Aðalgötunni, frá Tilraun og upp að kirkjugarðinum, á fundi sínum 25. júní síðastliðinn, en framkvæmdir við endurnýjun götunnar hafa staðið yfir frá því í maí. Á fundinum kynnti bæjarstjóri bréf frá tæknideildinni þar sem gerð var grein fyrir kostnaði við malbikun og lagningu kantsteins. Kostnaður við malbikun var þá áætlaður 7,3 milljónir króna og kostnaður við kantstein var áætlaður 550 þúsund krónur. Ekki var gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun ársins 2014 og var þessum þætti verksins vísað til fjárhagsáætlunar næsta árs. Samkvæmt því var ekki gert ráð fyrir að Aðalgatan yrði malbikuð á þessu ári.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga