Sólarlag við Húnaflóa
Sólarlag við Húnaflóa
Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Fréttir | 19. ágúst 2014 - kl. 18:31
Organistapistill
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hvort Húnaflóinn er blárri en aðrir firðir getum við haft að þrætuefni, sé okkur akkur í þrasi, en við getum líka hvatt okkar góðu vísnasmiði til að yrkja um flóann bláa eins og sumir hafa reyndar þegar gert. Um bláma fjarlægðar orti Ragnar heitinn Böðvarsson þegar hann kom norður með kirkjukórnum úr Flóahreppi. Verkefni okkar var að syngja ljóð Gísla Ólafssonar frá Eiríksstöðum í Húnaveri vorið 2012. Og skáldið í ferðinni kveður:

Löngum heillar ferðalang fjarlægðin blá

förum nú um Húnaþing grösugt og lokkandi.

Vakna minni útlegðar öræfum frá

ógnarsaga rifjast upp Þrístöpum hjá.

Margur er hér snöggur að snúa ræðu í brag

snilldarvísur Skáld-Rósu lifa enn í dag.

Lækjarvísur Gísla má löngum vítt um byggðir heyra.

Ljúflega fimmundarstemmurnar hljóma við.

Sjálfboðaliðar hafa unnið gott starf í kirkjunni okkar í sumar – eins og fyrri sumur –  draga upp fánann að morgni og taka á móti gestum 5 stundir á hverjum degi. Margur ekur um Blöndubrú og margur ræðir um útlit kirkjunnar sem vinur minn, steinsmiður á Sauðárkróki segir að dragi dám af Öxlinni sem gnæfir yfir Þingið. Ragnar orti líka um Vatnsdalsfjall og Öxlina sem oftar er kölluð Axlaröxl en sú vísa kemur í næsta pistli.

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga