Mynd: Tonleikar.net
Mynd: Tonleikar.net
Fréttir | 22. ágúst 2014 - kl. 18:22
Minningartónleikar um Gretti Björnsson

Minningartónleikar um Gretti Björnsson og systkini frá Bjargi verða haldnir í félagsheimilinu Hvammstanga klukkan 15 sunnudaginn 24. ágúst. Aðgangur er ókeypis og mun Kvenfélagið Björg selja veitingar á tónleikunum.

Grettir Björnsson harmonikkuleikari fæddist á Bjargi í Miðfirði 2. maí 1931. Hann lést þann 20. október 2005. Foreldrar hans voru Margrét Jónína Karlsdóttir, f. 1893, d. 1991, og Björn Jónsson, bóndi á Torfastöðum í Miðfirði, f. 1905, d. 1982. Fósturfaðir Grettis var Arinbjörn Árnason, f. 1904, d. 1999.

Grettir kvæntist 1. janúar 1952, Ernu S. Geirsdóttur, f. 1934 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Geir Jón Helgason lögregluþjónn, f. 1908, d. 1984, og Regína Sigríður Guðmundsdóttir, f. 1909, d. 1987. Börn þeirra eru Geir Jón, Margrét, Regína og Grettir.

Grettir ólst upp hjá móður sinni á Bjargi fyrstu tvö ár ævi sinnar, en á Bjargi var þó hans annað heimili fram á unglingsár. Árið 1933 giftist Margrét móðir hans Arinbirni Árnasyni, frá Neðri-Fitjum. Fluttu þau fljótlega til Hafnarfjarðar og síðar til Reykjavíkur. Grettir lauk þar gagnfræðaskólanámi, en að auki stundaði hann klarinettunám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og harmónikunám í einkatímum. Hann fluttist með konu sinni og tengdafólki til Vancouver í Kanada árið 1952.

Eftir níu ára búsetu þar vestra fluttist hann heim til Íslands ásamt konu sinni og börnum. Grettir vann alla sína starfsævi sem harmónikuleikari, við hljómsveitarstörf og harmónikukennslu. Einnig spilaði hann inn á allmargar hljómplötur og samdi harmónikulög og vann til margra verðlauna hér heima og vestan hafs. Hann var í mörgum kunnustu hljómsveitum landsins. Grettir var meðal annars kjörinn heiðursfélagi Félags harmónikuunnenda í Reykjavík. Grettir var húsamálari að mennt og vann við þá iðngrein alla tíð ásamt spilamennskunni.

Samferðafólk Grettis minnist hans sem góðs félaga, sem var bæði skapmikill og ljúfur. Hann var mikill tónlistarmaður og ólst upp við tónlistarlíf á Bjargi, þar sem söngur og önnur tónlist var í hávegum höfð. Foreldrar hans voru bæði mikið tónlistarfólk. Heimild: Tónleikar.net

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga