Fréttir | 28. ágúst 2014 - kl. 16:24
Námsver í Kvennaskólanum
Frá Þekkingarsetrinu

Nýlega var námsverið sem áður var staðsett á Þverbrautinni verið flutt yfir í Kvennaskólann á Blönduósi. Á Norðurlandi vestra eru starfandi fjögur námsver, á Hvammstanga, Blönduósi,  Skagaströnd og Sauðárkróki. Sveitarfélögin reka námsverin, hvert á sínu svæði. Í námsverunum er fjarfundabúnaður, FS háhraðanet, aðstaða til ljósritunar og kaffiaðstaða. Námsverin eru ætluð háskólanemum í fjarnámi auk annarra fjarnema, en nemendur geta fengið lykla kjósi þeir það.

Starfsmenn Þekkingarsetursins hafa umsjón með námsverinu á Blönduósi og munu aðstoða nemendur ef þörf er á, s.s. svara spurningum varðandi háskólanám, koma þeim í samband við starfs- og námsráðgjafa Farskólans, sitja yfir prófum, o.fl.

Opið hús verður haldið þriðjudaginn, 2. september, kl 20:00.

Námsver er staðsett við suðurenda Kvennaskólans, á móti Heimilisiðnaðarsafninu.

Við hvetjum alla nemendur sem skráðir eru í fjarnám eða þá sem hyggjast hefja fjarnám í framtíðinni til að koma, kynnast okkur og þeirri þjónustu sem í boði er.

Starfsmaður Farskólans mun einnig vera á staðnum.

Heitt á könnunni, allir velkomnir!

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga