Laxveiði í Blöndu
Laxveiði í Blöndu
Fréttir | 31. ágúst 2014 - kl. 12:58
Húnvetnsku árnar bera af

Þrjár húnvetnskar laxveiðiár trjóna á toppi lista Landssambands veiðifélaga yfir flesta veidda laxa á hverja stöng í sumar. Langflestir laxar hafa veiðst í Laxá á Ásum þegar aflatölur eru skoðaðar á hverja stöng eða um 420 en veitt er á tvær stangir í ánni og er heildarveiði sem af er sumri komin í um 840 laxa.

Blanda er með næstmesta veiði á hverja stöng í sumar eða 135 laxa en veiðst hefur um 1900 laxar í ánni sem af er sumri á 14 stangir. Blanda er einnig með næstmesta heildarafla af þeim á sem Landssamband veiðifélaga fylgist með. Í þriðja sæti listans er Miðfjarðar en þar hafa veiðst um 1280 laxar í sumar á 10 stangir sem gera um 128 laxa á hverja stöng.

Vatnadalsá er í ellefta sæti listans með 77 veidda laxa á hverja stöng en alls hafa veiðst um 540 laxar í ánni.

Laxveiðitímabilinu fer senn að ljúka þetta sumarið og miðað við þær tölur sem Landssamband veiðifélaga heldur utan um er ljóst að árið verður með lakari veiðisumrum. Þótt laxveiði hafi almennt verið nokkuð minni í húnvetnskum ám í sumar miðað við í fyrra hefur veiðin í Húnaþingi verið betri heldur en í öðum landshlutum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga