Aðalgatan
Aðalgatan
Fréttir | 02. september 2014 - kl. 15:14
Sýslumannsbrekkan klædd

Framkvæmdum við Aðalgötuna á Blönduósi er nú að ljúka en í lok síðustu viku var lögð klæðning á götuna, frá Tilraun og upp að kirkjugarðinum. Framkvæmdir við götuna hófust maí með jarðvegsskiptum og var í upphafi gert ráð fyrir að gatan yrði malbikuð.

Kostnaður við malbikun var áætlaður um 7,3 milljónir króna og var ekki gert ráð fyrir honum í fjárhagsáætlun Blönduósbæjar á þessu ári. Bæjarráð ákvað því að ganga til samninga við Borgarvirki um klæðningu á götuna en slík framkvæmd mun vera mun ódýrari en malbikun.

Endurnýjun Sýslumannsbrekkunnar á Blönduósi hefur verið fagnað af bæjarbúum og brottfluttum Blönduósingum en fjölmargir hafa lýst ánægju sinni með að loksins sé götunni og brekkunni sýnd sú virðing sem hún á skilið. Brekkan hefur lengi verið kölluð Sýslumannsbrekkan vegna þess að aðsetur sýslumannsins á Blönduósi var efst uppá brekkunni á Brekkubyggð 2 og síðar Garðabyggð 1.

Brekkan hefur versnað ár frá ári og í hana myndast djúpar holur. Má segja að malbikið á henni hafi verið orðið handónýtt og vildu sumir Blönduósingar frekar láta loka götunni en að hafa hana opna í því ástandi sem hún var orðin.

Sýslumannsbrekkan er nú aftur orðið greiðfær, Blönduósingum til ánægju og sóma.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga