Fréttir | 15. september 2014 - kl. 07:56
Öllum umsóknum hafnað

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra ákvað að hafna öllum umsóknum sem bárust um starf framkvæmdastjóra samtakanna sem auglýst var í júní síðastliðinn. Alls bárust þrettán umsóknir um starfið en þrír drógu umsóknir sínar til baka. Stjórn SSNV ætlar að leita að einstaklingi í starfið. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar SSNV frá 30. júlí síðastliðnum.

Stjórn SSNV auglýsti eftir starfi framkvæmdastjóra samtakanna í júní og kom fram í auglýsingunni að leitað væri eftir einstaklingi sem gæti unnið sjálfstætt, sýnt frumkvæði og hefði góða hæfileika í mannlegum samskiptum. Háskólamenntun sem nýst gæti í starfinu var sett sem skilyrði og þekking á sveitarstjórnarmálum og rekstri var æskileg.

Umsóknarfrestur rann út 7. júlí síðastliðinn og bárust 13 umsóknir eins og áður sagði. Stjórnsýslufræðingur, viðskiptafræðingur, lögfræðingur, framkvæmdastjóri, rekstrarráðgjafi, fyrrverandi bæjarstjóri og stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur voru á meðal umsækjenda.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga