Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 17. október 2014 - kl. 07:59
Tillögum skilað til Norðvesturnefndar

Í byrjun maí á þessu ári samþykkti ríkisstjórn Íslands að skipa sérstaka landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra sem komi með tillögur um það hvernig efla mætti byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu. Jafnframt á nefndin að horfa til þeirra tækifæra sem liggja í því hvernig efla megi opinbera þjónustu á svæðinu. Blönduósbær hefur skilað tillögum til nefndarinnar.

Nefndin, sem kölluð er Norðvesturnefnd, er undir forystu forsætisráðuneytisins og á hún að skila tillögum sínum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi. Nefndin er skipuð þeim Stefáni Vagn Stefánssyni, Sigríði Svavarsdóttur, Valgarði Hilmarssyni, Héðni Unnsteinssyni og Unni Valborgu Hilmarsdóttur. Með nefndinni starfar Ásmundur Einar Daðason og starfsmaður nefndarinnar kemur frá Byggðastofnun.

Í skýrslu sveitarstjóra Blönduósbæjar, sem lögð var fram á sveitarstjórnarfundi 14. október síðastliðinn kemur fram að Blönduósbær hefur skilað tillögum sínum til nefndarinnar og eru þær þessar:

  • Biodísel framleiðsla á Blönduósi

  • Frekari uppbygging mannvirkja Kvennaskólans

  • Fjölgun textílstarfa við Þekkingarsetrið á Blönduósi

  • Stuðning við gagnaver á Blönduósi

  • Efling Sýslumannsembættisins á Blönduósi

Í skýrslu sveitarstjóra kemur fram að búið sé að kynna drög að skýrslu fyrir forsætisráðherra og í tillögunum sé sérstök áhersla lögð á þrjú meginatriði en þau eru stærri atvinnutækifæri, tilfærsla opinberra starfa og ný opinber störf. Nefndin hefur lagt ríka áherslu á við stjórnvöld að þau beini sjónum sínum að Norðurlandi vestra þegar upp koma tækifæri í stærri iðnaðarkostum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga