Fréttir | 18. október 2014 - kl. 11:35
Eldað fyrir Ísland

Rauði krossinn á Íslandi stendur fyrir landsæfingu á morgun sunnudag milli klukkan 11 og 15 og býður þjóðinni jafnframt í mat. Alls verða 48 fjöldahjálparstöðvar opnaðar um allt land þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins standa vaktina, rétt eins og um alvöru neyðarástand væri að ræða. Klúbbur matreiðslumeistara leggur Rauða krossinum lið á landsæfingunni með því að reiða fram þjóðarréttinn, íslenska kjötsúpu.

Markmið verkefnisins er að æfa deildir Rauða krossins í að taka á móti stórum hópi fólks, eins og um opnun fjöldahjálpastöðvar væri að ræða, og klúbbur matreiðslumeistara æfi sig í að elda fyrir stóran hóp.

Deild Húnaþings vestra tekur þátt í verkefninu sem verður í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugabakka. Íbúar Húnaþings vestra sem vilja koma og gæða sér á ilmandi kjötsúpu, sér að kostnaðarlausu, eru beðnir að skrá sig hjá Kiddý í síma 892-5262 eða senda henni tölvupóst á netfangið kiddytoti@gmail.com. Einnig óskar deild Húnaþings vestra eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í þessu verkefni. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sæunni á netfangið saeunnv@gmail.com eða í síma 897-0816.

Þá kemur fram á vef Rauða krossins að boðið verði upp á kjötsúpu í Höfðaskóla á Skagaströnd og þar mun æfing einnig fara fram fer fram.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga