Fréttir | 23. október 2014 - kl. 10:54
Staðsetning starfa ríkisins og þjónustufyrirtækja

Að undanförnu hafa landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög í samstarfi við Byggðastofnunar kannað staðsetningu ríkisstarfa. Könnunin er uppfærsla á annarri könnun sem Byggðastofnun gerði 1994 og var þá liður í undirbúningi fyrir stefnumótandi byggðaáætlun 1994-1997.

Á vef Byggðastofnunar segir að staðsetning starfa á vegum ríkisins sé oft nefnd sem byggðamál en líklega sjaldan í samhengi við Reykjavík sem þó hafi notið stórkostlegs byggðastuðnings stjórnvalda að þessu leyti með höfuðstöðvar stjórnsýslu og langflestra starfsþátta ríkisins eins og fram komi í könnuninni, einkum þeirra sem hafi landið allt að vettvangi og marga starfsmenn.

Sjá má í könnuninni að Reykjavík skarar fram úr sem þjónustustaður ríkisins og greina má að Akureyri skorar hátt í samanburði við aðra þéttbýlisstaði en Reykjavík, bæði hvað varðar þjónustu á landshluta- og landsstigi. Þá má greina Ísafjörð, Sauðárkrók, Egilsstaði og Selfoss frá hinum og þá einkum með þjónustu á landshlutastigi.

Á vef Byggðastofnunar segir að athyglisvert sé að staðsetning ríkisþjónustu dreifist meira á þéttbýlisstaði Vesturlands, Norðurlands vestra og Suðurlands en á þéttbýlisstaði Vestfjarða, Austurlands og Norðurlands eystra og þó sérstaklega höfuðborgarsvæðisins.

Könnunina má sjá hér.

Staðsetning þjónustustarfa fyrirtækja

Landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög á Norðurlandi eystra gerðu einnig könnun í samráði við Byggðastofnun um staðsetningu þjónustustarfa fyrirtækja árið 2014. Á vef Byggðastofnunar segir að í grófum dráttum sé niðurstaðan könnunarinnar, í samanburði á henni og niðurstöðum könnunar á staðsetningu starfa ríkisins, sú að þjónustuþættir á landinu séu flestir á þeim stöðum sem flesta hafi íbúana og þar með á sömu stöðum og flest hafi ríkisstörf.

Könnunin náði til 58 þjónustuþátta, skipt í átta þjónustusvið sem spanna bæði þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga. Reykjavík hefur alla 58 þjónustuþætti og fjórir aðrir bæir hafa 50 þætti eða fleiri, Akranes, Akureyri, Selfoss og Keflavík/Njarðvík. Annars má lesa úr niðurstöðum að í hverjum landshluta er hið minnsta einn bær með marga starfsþætti þjónustufyrirtækja, 40 eða fleiri. Á Vesturlandi eru þeir þrír, Akranes, Borgarnes og Hellissandur/Ólafsvík, Ísafjörður á Vestjörðum, Sauðárkrókur á Norðurlandi vestra, Akureyri og Húsavík á Norðurlandi eystra, Egilsstaðir á Austurlandi, þrír bæir á Suðurlandi, Selfoss, Höfn og Vestmannaeyjar, Keflavík/Njarðvík á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu eru 4 staðir, sem eru þó aðeins einn í mörgu tilliti, með svo marga starfsþætti, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Seltjarnarnes.

Könnunina má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga