Ljósm: Jóhanna E. Pálmadóttir
Ljósm: Jóhanna E. Pálmadóttir
Fréttir | 28. nóvember 2014 - kl. 21:12
Nemar úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands í heimsókn á Blönduósi

Þessa viku hafa níu nemendur, úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands, ásamt sviðstjóra fatahönnunardeildar skólans, Katrínu Káradóttur, dvalið í Kvennaskólanum á Blönduósi. Þetta er tilraun til að skapa samstarf á milli Listaháskólans og Þekkingasetursins og lofar vikan góðu. Nemendurnir eru á þriðja ári og vinna að lokaverkefni sínu en þau útskrifast í vor.

Vinna þeirra hér fólst í því að kynna sér ýmsar áferðir og vinnslu á efnum sem er undirbúningur fyrir sýningu þá sem þau halda í vor. Ragnheiður Þórsdóttir, vefari og bæjarlistarmaður Akureyrar, kom og kynnti fyrir þeim vefnað og var ekki að sökum að spyrja, því allflestir vildu prófa og var það auðsótt. Ákafinn var slíkur að Ragnheiður kom aftur og enn er ofið. Miðað var við að þau væru frá mánudegi og fram á fimmtudag en sumir gátu ekki hætt og voru fram á föstudagskvöld.

Jóhanna E. Pálmadóttir, forstöðukona Textílseturs Íslands, kenndi þeim prjón, hekl, útsaum og spuna og var mikill áhugi fyrir þessu öllu og miklar vangaveltur um áferð, aðferð og útkomu, þá voru Heimilisiðnaðarsafnið, Gestastofa Sútarans, Ullarþvottastöðin og fjárhúsin á Akri heimsótt. Nemendurnir voru mjög áhugasamir og gleðin skein úr hverju andliti.

Umsögn nokkurra nemanda var á þessa leið: „það er frábært að fá tækifæri til að vera í þessu dásamlega húsi og fá fræðslu um ýmsar aðferðir við vinnslu á efnum“, „þetta er besta fríið sem ég hef tekið og þó hef ég unnið sleitulaust allan tímann“, „frábært að kunna að prjóna og vefa“, „Takk fyrir að gefa okkur kost á þessari upplifun“, „við komum pottþétt aftur“.

Í samtali við Jóhönnu sagði hún m.a. „Vikan var á allan hátt lærdómsrík og skemmtileg fyrir alla sem komu að þessu. Ekki síst fyrir það hversu opin og elskuleg krakkarnir voru og líka að við gátum vakið áhuga þeirra fyrir handverki sem þau síðan nýta sér á alveg nýjan hátt. Munum við nýta okkur þessa reynslu til frekari starfa á þessu sviði, þ.e. að bjóða skólum að senda nemendur hingað til að vinna að sínum verkefnum. Hingað til hefur Håndarbejdes Fremmes UCC sent reglulega nemendur í Kvennaskólann og er hann sá eini hingað til. Vonandi verður breyting þar á eftir þessa viku“.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga