Fréttir | 22. desember 2014 - kl. 22:47
Sagan af horaða jólatrénu er komin út

Bókin Horaða jólatréð eftir Magnús B. Jónsson, sveitarstjóra á Skagaströnd, er komin út. Það er ekki auðvelt að vera jólatré. Það er ekki nóg með að það séu gerðar kröfur til að vera af ákveðinni tegund heldur verður maður líka að vera bæði stór og fallegur, segir í bókarkynningu.

Hugmyndin að sögunni er sprottin upp af þeim atburði sem birtist í frétt um að lítið og rýrt jólatré hefði ekki þótt nógu gott sem aðal jólatréð á Skagaströnd og að börnin hafi safnað undirskriftum til að bjarga því frá að vera hent. Í bréfinu stóð: „Jólatré, jólatré. Við vorkennum litla horaða jólatrénu og viljum ekki láta henda því.“

Þetta tilefni varð til þess að Magnús skrifaði sögu horaða trésins út frá sjónarhóli þess sjálfs þar sem fjallað er um hvernig það er að vaxa upp í skugga og rýrum jarðvegi og hversu erfitt það er fyrir litið tré að skilja af hverju hin trén reyna að vera vond við þann sem vex hægar.

Bókin er myndskreytt af Reyni B. Ragnarssyni, bróðursyni Magnúsar. Hann býr í Kaliforníu og var ellefu ára þegar hann fékk söguna senda sem kveðju frá Íslandi á jólunum. Hann þakkaði fyrir sig með myndrænni túlkun á söguefninu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga