Fréttir | 13. janúar 2015 - kl. 10:59
Erindi um riffilbraut hafnað í annað sinn

Skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar hefur, öðru sinni, hafnað erindi Skotfélagsins Markviss um gerð riffilbrautar á skotsvæði félagsins. Ástæðan er sú að staðsetningin er ekki í samræmi við aðalskipulag Blönduósbæjar 2010-2013. Ef gefa ætti leyfi fyrir brautinni þyrfti að breyta aðalskipulaginu og gera deiliskipulag fyrir svæðið. Nefndin hefur áður fjallað um erindi skotfélagsins og mælti þá ekki með því að aðalskipulagið yrði endurskoðað.

Á aðalfundi Skotfélagsins Markviss í febrúar 2013 var ákveðið að sækja um leyfi fyrir allt að 300 metra riffilbraut og var erindi um slíkt sent til þáverandi skipulags-, byggingar- og veitunefndar Blönduósbæjar. Nefndin hafnaði erindinu á þeirri forsendu að það samræmdist ekki núgildandi aðalskipulagi og að ekki lægi fyrir stefnumótandi ákvörðun um notkun svæðisins.

Stjórn Markviss sendi nýtt erindi til nefndarinnar þar sem óskað var eftir því að gerð yrði breyting á aðalskipulaginu þannig að hægt yrði að ráðast í gerð riffilbrautarinnar á skotsvæði félagsins. Nefndin benti á að í aðalskipulagi væri gert ráð fyrir skotæfingasvæði en áður en til frekari uppbyggingar kæmi þyrfti að deiliskipuleggja svæðið undir starfsemina. Mælti hún ekki með því að aðalskipulagið yrði endurskoðað.

Erindi Skotfélagsins Markviss var rætt á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar í gær og kom þar m.a. fram að nefndin hefði skoðað hvort að aðrir kostir væri til uppbyggingar á aðstöðu fyrir félagið en sú skoðun hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Nefndin ítrekaði fyrri afstöðu og þar sem fyrir lægi að ekki væri hægt að afgreiða erindið vegna heimildarskorts í skipulagi var erindinu hafnað í annað sinn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga