Mynd: Kanina.is
Mynd: Kanina.is
Fréttir | 26. janúar 2015 - kl. 12:25
Reksturinn gengur vel

Á vef Bændablaðsins er fjallað um fyrirtæki Birgit Kositzke, Kanína ehf., sem hefur verið að byggjast upp í Húnaþingi vestra undanfarin misseri. Birgit segir að staðan sé góð um þessar mundir, það gangi bara vel og í rauninni betur en hún átti von á. Hún segir að stefnt sé að því að slátra að jafnaði einu sinni í mánuði framvegis og muni það magn sem fer á markað aukast smátt og smátt. Gerir hún ráð fyrir að verð á íslensku kanínukjöti verði svipað og á nautalund.

Eskja í Reykjavík hefur umboð fyrir kanínukjötið og bendir Birgit þeim sem áhuga hafa á að verða sér úti um ferskt kanínukjöt að hafa samband við fyrirtækið.

Auk þess sem félagið býður kanínukjöt til manneldis verða möguleikar á að nýta aukaafurðir einnig skoðaðir og nýttir eftir því sem tækifæri eru á.  Það á til dæmis við um skinn, en tilraunir með að súta skinn hjá fyrirtækinu Loðskinni á Sauðárkróki lofa að hennar sögn góðu.

Birgit segist bjartsýn á framhaldið, út sé kominn bæklingur með uppskriftum og leiðbeiningum um hvernig best sé að meðhöndla og elda kanínukjöt og séu viðtökur góðar. Þá sé fyrirhugað að opna nýtt veitingahús á Hvammstanga með vorinu, líklega í mars og uppi séu hugmyndir um að efna þar til sérstakrar kanínuveislu. „Það er margt spennandi í gangi og ég er bjartsýn,“ segir Birgit í samtali við Bændablaðið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga