Fréttir | 29. janúar 2015 - kl. 10:57
Breytingar á sorpgjöldum í Húnavatnshreppi

Ný gjaldskrá fyrir sorphirðu- og sorpeyðingargjöld tók gildi í Húnavatnshreppi 22. janúar síðastliðinn og á vef sveitarfélagsins eru íbúar hvattir til þess að kynna sér reglugerðina. Sorphirða fer fram samkvæmt dagatali sorphirðu ár hvert og verða sorphirðudagar á þessu ári 19 eins og þeir voru á síðasta ári. Einnig er móttaka sorps á gámasvæðum. Almennt eru sorpgjöld í Húnavatnshreppi að lækka um 20% frá fyrra ári.

Gjald miðast nú við stærð og tegund íláta og fjölda tæminga. Hverjum húsráðanda er skylt að nota það ílát sem sveitarstjórn ákveður og hentar magni úrgangs sem til fellur á hverjum stað. Sorpgjald fyrir almennan úrgang íbúða, lögbýla og íbúðarhúsa ræðst af stærð íláta og staðsetningu. Fyrir 240 lítra kör þarf að greiða 27.500 krónur og fyrir 660 lítra kör þarf að greiða 36.500 krónur.

Fyrirtæki og stofnanir og aðrir lögaðilar greiða sorphirðugjald samkvæmt áætlun um kostnað við sorphirðu frá þeim og skiptist það í fimm flokka. Sveitarstjórn raðar fyrirtækjum í flokka eftir eðli og umfangi þeirra.

Flokkur 1, 42.000 krónur.
Flokkur 2, 109.000 krónur.
Flokkur 3, 130.000 krónur.
Flokkur 4, 212.000 krónur.
Flokkur 5 396.000 krónur.

Að lokinni álagningu hafa greiðendur 30 daga frest til að gera athugasemdir við gjaldtöku Húnavatnshrepps. Athugasemdir skulu vera skriflegar og vel rökstuddar. Sveitarstjórn er heimilt að breyta gjaldtöku með tilliti til réttmætis framsettra athugasemda.

Reglugerðina má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga