Fréttir | 29. janúar 2015 - kl. 12:48
Slökkt á hliðrænu dreifikerfi RÚV 2. febrúar
Hliðrænar útsendingar í Húnavatnssýslum hætta

Kaflaskil verða í íslenskri fjarskiptasögu 2. febrúar næstkomandi. Þá lýkur síðasta áfanga í uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi Vodafone og RÚV og slökkt verður á hliðræna dreifikerfinu sem þjónað hefur landsmönnum allt frá upphafi sjónvarpsútsendinga árið 1966. Útsendingin verður þá alfarið á stafrænu dreifikerfi sem þýðir stórbætta þjónustu um allt land, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Í hennir kemur fram að stefnt hafi verið að þessum áfanga allt frá því að RÚV og Vodafone gerðu með sér samning um uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi 1. apríl 2013. Hann sé sá sjötti og síðasti í uppbyggingu nýja kerfisins – og langsamlega sá stærsti. Þar með hætta hliðrænar útsendingar RÚV á höfuðborgarsvæðinu (bæði um VHF/UHF og á örbylgjudreifikerfinu) auk þess sem líka verður slökkt á hliðræna dreifikerfinu í Húnavatnssýslum, hluta Skagafjarðar, á Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum.

Jafnframt þessu er tekin í notkun ný útsendingartækni sem hentar til háskerpuútsendinga. Allir sendar hafa verið settir upp og háskerpuútsendingar eru hafnar á flestum svæðum. Um þessar mundir er unnið að því að opna á háskerpuútsendingar á þeim sendum sem eftir eru.

Nýja kerfið nær til yfir 99,9% allra heimila á landinu og með því stórbatna myndgæði í útsendingu. RÚV getur nú loks sent út til þjóðarinnar allrar á tveimur sjónvarpsrásum, RÚV og RÚV2, en önnur þeirra verður í HD, eða háskerpu. Fleiri einkastöðvar verða sendar út um stafræna kerfið og geta því þúsundir heimila í hinum dreifðu byggðum nú í fyrsta sinn séð fleiri sjónvarpsstöðvar en RÚV. Að auki er fjöldi útvarpsstöðva sendur út með nýja kerfinu til viðbótar við útvarpsrásir RÚV, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga