Fréttir | 29. janúar 2015 - kl. 14:27
Starfsgreinasambandið undirbýr næstu skref

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands veitti í dag samningaráði sambandsins umboð til að vísa kjaradeilu þess við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Starfsgreinasambandið fer með umboð 16 aðildarfélaga um allt land, þar á meðal fyrir stéttarfélagið Samstöðu og semur fyrir rúmlega 12 þúsund manns á almennum vinnumarkaði.

Launakröfur Starfsgreinasambandsins voru birtar Samtökum atvinnulífsins á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara mánudaginn 26. janúar. Þar lýstu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins því strax yfir að kröfugerðin gæti ekki orðið grundvöllur að samningagerð og höfnuðu frekari viðræðum við samninganefnd Starfsgreinasambandsins.

Á fundi formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, sem haldin var í dag, var vonbrigðum lýst með þessi viðbrögð Samtaka atvinnulífsins, sem endurspegli mikið ábyrgðarleysi. Kjarasamningar muni ekki nást nema deiluaðilar ræðist við. Með viðbrögðum sínum hafi Samtök atvinnulífsins hins vegar ákveðið að skila auðu.

Í ljósi þessara viðbragða undirbúa aðildarfélög Starfsgreinasambandsins nú að vísa deilunni til ríkissáttasemjara og hefja undirbúning aðgerða.

Ásgerður Pálsdóttir, formaður Samtöðu var í ítarlegu viðtali í Feyki í síðustu viku en þar ræddi Karl Eskil Pálsson, fjölmiðlamaður, við hana um félagið og komandi viðræður. Í viðtalinu segist Ásgerður ekki vera ýkja bjartsýn í upphafi kjaraviðræðna. „Nei, ég það ekki, rétt eins og aðrir kollegar mínir. Við heyrum tóninn í talsmönnum Samtaka atvinnulífsins, sem tala fyrir því að semja á „hóflegum“ nótum.  Og við bætist að sjálfur seðlabankastjóri virðist vera á bandi vinnuveitenda, þótt hann komi ekki til með að sitja samningafundina. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa nokkrar  starfsgreinar samið um verulegar kjarabætur og almennir launþegar geta ekki sætt sig við að fá allt aðra meðhöndlun við samningaborðið. Stéttarfélagið Samstaða og fimmtán félög til viðbótar hafa sent samningsumboð sín til Starfsgreinasambands Íslands. Samvinna þessara félaga er góð, þannig að slagkrafturinn er mikill. Við teljum að baklandið sé traust og verkalýðshreyfingin sest við samningaboðið með það að leiðarljósi að ná fram ásættanlegum samningum. Við  munum ekki sætta okkur við að sitja eftir í launum eða kjörum, miðað við aðra hópa. Sumir hafa talað um að kaldur kjaravetur sé í farvatninu og ég get tekið undir þau orð. Eins og staðan er núna gæti jafnvel komið til einhverra aðgerða af okkar hálfu, jafnvel að grípa þurfi til verkfallsvopnsins. Ég er hins vegar bjartsýn að eðlisfari og leyfi mér að vona að almennir launþegar fái réttlátar kjarabætur. Þeir hafa sannarlega lagt sitt að mörkum til þjóðfélagsins og eiga að njóta þess. Við mætum vel undirbúin til kjaraviðræðnanna.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga